Klefinn.is og HSÍ og A-landsliðs kvenna bjóða í áhorfspartý á úrslitaleikinn á Evrópumeistaramótinu í Minigarðinum sunnudaginn 15. desember klukkan 16. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir að sögn Silju Úlfarsdóttur sem skipuleggur og heldur utan um samkomuna en þangað koma m.a. þær landsliðskonur Íslands sem eru á landinu.
„Við byrjum partýið klukkan fjögur og ætlum að ræða um upplifun landsliðs kvenna af mótinu og svo fara þær yfir liðin sem leika til úrslita. Einnig ræða leikmenn í hálfleik á úrslitaleiknum. Fyrr um daginn verður dregið í umspilinu og ljóst hver verður andstæðingur íslenska landsliðsins. Svo það verður um margt að ræða,” segir Silja í samtali við handbolta.is en hún vonast til að allir eigi góða samverustund saman.
Taka þátt í skemmtilegum viðburði
„Ég vona bara að fólk fjölmenni,“ segir Silja sem stóð fyrir körfuboltaviðburði í september ásamt Helenu Sverrisdóttur.
„Um 180 manns kom og borðin seldust upp. Ég vona að þótt um sé að ræða þriðja í aðventu þá mæti fólk og taki þátt í skemmtilegu kvöldi með okkur,“ segir Silja sem segir mikilvægt að tengja saman frábæran árangur íslenska landsliðsins við næstu kynslóð.
Koma með boli og bolta
„Að leyfa ungum stúlkum að hitta hetjurnar. Það væri gaman ef fólk kæmi með bolta og búninga til að árita svo allir fái sem mest út úr þessu,“ segir Silja ennfremur. Einnig verður boðið upp á myndastund með landsliðskonunum.
Hundrað fyrstu gestirnir fá gjafapakka.
Búa til alvöru stemningu
„Draumurinn er að fylla staðinn og eiga góða stund saman en um leið að fá sem flesta á næsta heimaleik landsliðsins. Búa til alvöru stemningu í kringum kvennahandboltann og um leið að halda áfram að halda á lofti fyrirmyndum,“ bætir Silja við sem vonast til þess að sjá sem flesta í Minigarðinum í Skútuvogi á sunnudaginn klukkan 16 í skemmtilegri fjölskyldustund. Matur verður seldur á staðnum svo enginn á að fara svangur heim eftir skemmilega samveru með landsliðskonunum yfir úrslitaleik EM.
Nánar er rætt við Silju á myndskeiði sem er að finna í þessari grein.