Eftir að undankeppni Evrópuhluta umspils heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik lauk í gær hafa landslið frá 31 þjóðum tryggt sér keppnisrétt á mótinu sem fram fer í Hollandi og Þýskalandi frá 26. nóvember til 14. desember. Alls taka 32 landslið þátt í mótinu. Stjórn Alþjóða handknattleikssambandsins ákveður hver fær síðasta sætið.
Dregið verður í riðla fimmtudaginn 22. maí í s-Hertogenbosch í Hollandi.
Fimm leikstaðir
Leikstaðir HM 2025 verða fimm; Dortmund, Trier og Stuttgart í Þýskalandi og Rotterdam og s-Hertogenbosch, betur þekkt sem Den Bosch, í Hollandi. Dregið verður í átta fjögurra liða riðla fimmtudaginn 22. maí í s-Hertogenbosch.
Færeyingar með í fyrsta sinn
Færeyska landsliðið verður með á HM kvenna í fyrsta skipti og brýtur þar með blað í sögu færeyskrar íþróttasögu til þess að verða fyrsta A-landsliðið til þess að leika í úrslitum stórmóts í boltaíþrótt. Karlalið Færeyinga í handknattleik hefur aldrei tekið þátt í HM. Kvennalandsliðið var í fyrsta sinn í lokakeppni EM á síðasta ári.
Egyptaland og Sviss senda einnig landslið til keppni á HM kvenna í fyrsta sinn.
Eftirtalin lönd eru örugg um sæti á HM kvenna:
- Holland og Þýskaland, gestgjafar.
- Frakkland, heimsmeistari 2023.
- Noregur, Evrópumeistari 2024.
- Danmörk og Ungverjaland, silfur- og bronslið EM 2024.
- Bandaríkin, boðskort.
- Kína, boðskort.
- Argentína, Brasilía, Úrúgvæ frá Mið- og Suður-Ameríku.
- Kúba frá Norður- og mið Ameríku.
- Angóla, Egyptaland, Senegal, Túnis frá Afríku.
- Íran, Kasakstan, Japan og Suður Kórea frá Asíu.
- Ísland, Svartfjallaland, Pólland, Spánn, Færeyjar, Sviss, Svíþjóð, Rúmenía, Serbía, Tékkland, Austurríki eftir umspilsleiki Evrópu.