- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dregið verður í riðla í undankeppni EM 2024 í Berlín í dag

Útilokað er að landsleikir fari fram í knattspyrnuhöllum hér á landi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Í dag verður dregið í riðla fyrir undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla sem fram fer í Þýskalandi frá 10. til 28. janúar. Dregið verður í átta fjögurra liða riðla við hátíðlega athöfn í Berlín. Athöfnin hefst klukkan 16. Nafn Íslands er í fyrsta styrkleikaflokki, þ.e. með sterkustu liðunum.


Hvíta-Rússland og Rússland var vísað úr keppni eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar. Í staðinn taka landslið Georgíu og Lúxemborg þátt og verða í fjórða styrkleikaflokki.

1. styrkleikaflokkur:
Noregur, Frakkland, Króatía, Slóvenía, Ungverjaland, Portúgal, Ísland, Austurríki.
2. styrkleikaflokkur:
Tékkland, Pólland, Holland, Svartfjallaland, Norður Makedónía, Serbía, Sviss, Úkraína.
3. styrkleikaflokkur:
Bosnía, Litáen, Lettland, Ísrael, Slóvakía, Tyrkland, Rúmenía, Grikkland.
4. styrkleikaflokkur:
Kósovó, Belgía, Eistland, Færeyjar, Finnland, Ítalía, Georgía, Lúxemborg.

Byrjað verður á að draga liðin í fjórða styrkleikaflokki. Að því loknu tekur við dráttur úr þriðja flokki og þar á eftir þjóðirnar í fyrsta flokki.

Áður en nöfn þjóðanna í öðrum flokki verða dregin út af handahófi verður séð til þess að Serbía hafni ekki í riðil með Kósovó. Serbar viðurkenna ekki sjálfstæði Kósovó og þar af leiðandi ekki veru landsins innan Handknattleikssambands Evrópu, EHF.

Þegar séð hefur verið til þess að Serbía og Kósovó verði ekki saman í riðli verða nöfn annarra landa í öðrum flokki dregin út.

Undankeppnin hefst í haust og verður lokið 30. apríl á næsta ári. Leikdagar í riðlakeppninni:
1. umferð: 12./13. október 2022.
2. umferð: 15./16. október 2022.
3. umferð: 8./9. mars 2023.
4. umferð: 11./12. mars 2023.
5. umferð: 26./27. apríl 2023.
6. umferð: 30. apríl 2023.

Alls tryggja 20 þjóðir sér sæti í lokakeppni EM 2024. Tvö efstu úr hverjum riðli auk þeirra fjögurra sem standa best að vígi af þeim sem hafna í þriðja sæti.
Gestgjafar Þjóðverja, Evrópumeistarar Svíþjóðar auk Spánar og Danmerkur, silfur- og bronsverðlaunahafa á EM 2022 taka ekki þátt í undankeppninni.

Keppnisstaðir á EM 2024 í Þýskalandi:
Berlín, Hamborg, Düsseldorf, Köln, Mannheim, München. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -