Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik og leikmaður ÍBV, er með slitið krossband í hægra hné. Hún staðfestir það í samtali við Vísir í dag en grunur vaknaði strax á föstudaginn þegar hún meiddist í viðureign Gróttu og ÍBV í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikars kvenna í Hertzhöllinni að meiðslin gætu verið jafn alvarleg og nú hefur verið staðfest.
Þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem hin 28 ára gamla stórskytta slítur krossband. Ljóst er að Birna Berg verður frá keppni næsta árið af þessum sökum.
Birna Berg segir í viðtalinu að hún hafi farið í gegnum allan tilfinningskalann síðustu daga. Hún sé staðráðin í að láta þetta áfall ekki binda enda á ferlilinn. „En þetta eru engin endalok fyrir mig og ég myndi aldrei sætta mig við að enda ferilinn svona,“ segir Birna í viðtali við Vísir.
Hún flutti heim fyrir rúmu ári eftir nokkurra ára feril í atvinnumennsku í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og í Þýskalandi. Gekk hún rakleitt til liðs við ÍBV.
„Þetta er erfitt en ég er sterk andlega og ef einhver getur tekist á við þetta þá er það ég. Ég hef gert þetta áður og veit alveg hvað ég er að fara út í,“ segir Birna Berg Haraldsdóttir ákveðin.