- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ef öxlin er í lagi þá tekur næsti leikur við

Ásgeir Snær Vignisson t.h. ásamt formanni handknattleiksdeildar ÍBV, Davíð Óskarssyni. Mynd/ÍBV
- Auglýsing -

Athygli hefur vakið að handknattleiksmaðurinn ungi hjá ÍBV, Ásgeir Snær Vignisson, er farinn að leika af fullum krafti á nýjan leik með ÍBV, aðeins um fjórum mánuðum eftir að hann gekkst undir aðgerð á öxl í framhaldi af því að hann fór úr vinstri axlarlið í lok september en Ásgeir er örvhentur.


Aðgerð var gerð í byrjun október af Örnólfi Valdimarssyni. Liðpokinn var saumaður upp á beinið og er hann er með tvö svokölluð akkeri við axlarliðinn. Síðan halda saumar öllu saman. Fleiri hafa farið í viðlíka aðgerðir eftir að hafa farið úr axlarlið og má þar m.a. nefna Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörð í knattspyrnu og Gísla Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmann í handknattleik.

Nauðsynleg aðgerð

„Þessi aðgerð var nauðsynleg til þess að koma í veg fyrr að ég færi fljótlega úr lið á nýjan leik,“ sagði Ásgeir Snær þegar handbolti.is heyrði í honum í vikunni.


Ásgeir lék sinn fyrsta leik á ný eftir endurhæfingu í síðustu viku gegn Gróttu og var á fullum krafti með ÍBV á móti Stjörnunni í byrjun þessarar viku eins og ekkert hefði ískorist. Ásgeir skoraði fimm mörk í leiknum, átti tvær stoðsendingar og vann tvö vítaköst.

„Það var gott að komast aftur í boltann eftir langa bið. Ég finn ekki fyrir verkjum í öxlinni og líður bara nokkuð vel á vellinum. Ég var úti í nærri fjóra mánuði en missti ekki af mörgum leikjum vegna covidsins. Það má segja að það hafi verið lán í óláni hjá mér stoppið vegna kórónuveirunnar,“ segir Ásgeir sem verður væntanlega í eldlínunni þegar ÍBV tekur á móti KA í níundu umferð Olísdeildarinnar í Vestmannaeyjum á sunnudaginn.

Engin pressa

„Endurhæfingin gekk mjög vel en ágætlega var fylgst með ástandinu og ekki rasað um ráð fram. Ég fékk til dæmis ekki leyfi til þess að taka þátt í leiknum við Fram, fyrsta leik okkar Eyjamanna eftir að keppni hófst aftur í Olísdeildinni. Það var engin pressa frá félaginu um að ég byrjaði að spila fyrr en ég væri alveg tilbúinn,“ segir Ásgeir.

Álagið aukið jafnt og þétt

„Ég var í fjórar vikur í fatla áður en endurhæfingin hófst sem snerist fyrst og síðast um að styrkja öxlina. Georg Ögmundsson sjúkraþjálfari í Vestmannaeyjum sá alveg um mig. Við byrjuðum rólega. Ég var teipaður rosalega vel þannig að til að byrja með var hreyfigeta axalarinnar mjög takmörkuð. Álagið var síðan jafnt og þétt aukið,“ segir Ásgeir Snær sem hefur einnig gengið vel að endurheimta sjálfstraustið á nýjan leik.


Ásgeir segir að batinn hafi orðið skjótari en reiknað var með. Í upphafi var rætt um að fimm mánuðir gæti liðið þar til hann snerti handbolta og færi að leika af krafti aftur. Sá tími styttist niður í rúma þrjá mánuði, ekki síst vegna þess að fyrir utan að fara úr liðnum þá skemmdist ekkert.

Slapp vel

„Styttri tími helgaðist meðal annars af því að ég fékk fljótt aðgerð eftir óhappið auk þess sem það trosnaði ekkert af liðböndum og festingum. Eins er alltaf talsverð hætta fyrir hendi þegar handleggurinn er settur í lið að það komi beinflísar inn í liðinn. Ég var heppinn að það gerðist ekki í mínu tilfelli og varð það til að létta róðurinn í endurhæfingunni.“

Hugað að Ásgeiri Snæ eftir að hann fór úr axlarlið í viðureign við Val 26. september sl. Mynd/ÍBV


Ásgeir Snær segist vera á góðri leið með að endurheimta þann styrk sem hann hafði fyrir óhappið. Næsta skref sé að bæta við líkamlega styrkinn. „Ég held áfram að vinna með Georgi þrisvar í viku og ef öxlin heldur áfram að vera í lagi þá tekur bara næsti leikur við,“ segir Ásgeir Snær sem kom til liðs við ÍBV á síðasta sumri frá Val. Hann kann vel við sig í Vestmannaeyjum og stundar nám við Framhaldsskólann í bænum samhliða handboltanum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -