Eftir sigur í sjö fyrstu leikjunum á keppnistímabilinu tapaði MT Melsungen í gær fyrir Bergsicher, 32:31, í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla. Mads Andersen skoraði sigurmark Bergischer beint úr aukakasti eftir að leiktíminn var liðinn.
Meðan þessu fór fram vann Füchse Berlin öruggan sigur á HC Erlangen í viðureign liðanna í Nürnberg, 35:27. Berlínarliðið situr þar með eitt í efsta sæti með 16 stig eftir 8 leiki.
Melsungen er tveimur stigum á eftir. SC Magdeburg er stigi á eftir að loknum naumum sigri á útivelli á Göppingen, 27:26.
Þrjú íslensk mörk
Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk og átti þrjár stoðsendingar í liði MT Melsungen. Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki mark að þessu sinni. Melsungen var þremur mörkum yfir þegar fyrri hálfleikur var að baki, 18:15.
Arnór Þór Gunnarsson er aðstoðarþjálfari Bergischer sem fagnaði sínum öðru sigri á leiktíðinni í deildinni. Sigurinn á Melsungen færði liðið upp í 15. sæti.
BUNDESLIGA!
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) October 7, 2023
Bergischer, who were LAST (18th), defeat Melsungen, who had maximum points! How? Directly on free throw by Mads Kjeldgaard. One hell of a handball match!
🎥: DYN#handball pic.twitter.com/sTqZF7pzgH
Elliði Snær með tvö
Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach í sigri á Balingen-Weilstetten, 34:31. Leikið var á heimavelli Balingen. Oddur Gretarsson og Daníel Þór Ingason voru ekki aðsópsmiklir í liði Balingen í leiknum ef marka má tölfræðina á heimasíðu þýsku 1. deildarinnar.
Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach
Janus á gamla heimavellinum
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk, þar af þrjú úr vítaköstum, í naumum sigri Magdeburg í heimsókn til harðskeyttra liðsmanna Göppingen, 27:26. Janus Daði Smárson skoraði þrjú mörk fyrir Evrópumeistarana gegn sínu fyrrverandi liði og gaf eina stoðsendingu.
Loksins sigur hjá Aue
Loksins tókst nýliðum EHV Aue að vinna leik í 2. deildinni í Þýskalandi. EHV Aue vann skuldum vafið lið Hüttenberg, 29:25, á heimavelli í sjöttu umferð. Sveinbjörn Pétursson stóð í marki EHV Aue meirihluta leiksins og varði átta skot, 28%.
Með á ný
Tumi Steinn Rúnarsson lék á ný með Coburg eftir að hafa misst af tveimur leikjum vegna meiðsla. Hann hafði sig lítið í frammi í fjögurra marka tapi á heimavelli gegn ASV Hamm, 26:22. Tumi Steinn átti eitt markskot sem missti marks, ef marka má útgefna tölfræði frá leiknum.
Stöðuna í mörgum deildum Evrópu er hægt að sjá hér.