- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eftir skítaleik verðum við að fara til baka í handbolta 101

Aron Pálmarsson sækir á vörn Tékka í leiknum í Brno á miðvikudagskvöldið. Mynd/Kristján Orri - HSÍ
- Auglýsing -

„Við getum bara svarað fyrir okkur með stórleik á sunnudaginn. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skiptið sem við leikum illa á útivelli í undankeppni. Við könnumst aðeins við þetta,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins á blaðamannafundi fyrir æfingu íslenska landsliðsins í íþróttahúsinu í Safamýri í dag.


Öll spjót standa á Aroni og samherjum og þjálfurum landsliðsins eftir slakan sóknarleik í Brno í Tékklandi á miðvikudagskvöldið. Aron segir að ekkert annað komi til greina en að svara hressilega fyrir sig í síðari leiknum við Tékka á sunndaginn í Laugardalshöll.

Gott að fá langan ferðadag

„Það var gott að fá langan ferðadag heim í gær og þjást aðeins á leiðinnni. Þar með höfðum við tækifæri til þess að velta málum aðeins fyrir okkur.“

Lékum hreinlega mjög illa

„Við verðum að fara aðeins til baka í handbolta 101, ef svo má segja. Við lékum kerfin okkar illa í leiknum í Brno. Málið snerist ekki um hvað var leikið eða hvert uppleggið var. Við hreinlega lékum mjög illa. Þess vegna gerðum við Tékkum auðveldara fyrir að mæta okkur. Það er nokkuð sem við verðum að laga og til þess höfum við tíma,“ sagði Aron.

Óánægður með eigin frammstöðu

Spurður hvort sálfræðilega hafi baráttan í Brno verið erfið sagði Aron að ljóst sé að þannig hafi farið þegar leið á síðari hálfleik. Hann er óánægður með eigin frammistöðu og vonsvikinn yfir að hafa látið hlutina fara eins og þeir fóru og áhorfendur fengu að sjá.

Sárt að leyfa þessu að gerast

„Okkur leið ekkert illa í hálfleik þrátt fyrir að fyrri hálfleikurinn hafi ekki verið frábær af okkar hálfu. Síðan leið tíminn fram í síðari hálfleik og hlutirnir gengu ekki hjá okkur þá sér maður þegar horft er á leikinn að við fórum ekki í aðgerðir af fullum krafti, við tókum ekki ábyrgð og þar fór ég fremstur í flokki. Sú staðreynd er ekki boðleg og eftir leikinn er ég svekktastur á mér sjálfum að sjá og leyfa þessu að gerast.“

Fókusinn settur yfir á næsta leik

„Þetta var einn skítaleikur. Hann er liðinn og fókusinn settur yfir á næsta leik. Við höfum oft leikið illa en risið upp og næst á eftir sýnt góðan leik. Það er okkar markmið núna,“ sagði Aron ennfremur og bætti við.

„Eftir leikinn í Brno var eins og himinn og jörð væru að farast. Maður svaf ekki neitt.“

Ætlum að axla ábyrgð á sunnudaginn

Framundan hjá íslenska landsliðinu er að spyrna sér frá bakkanum þegar kemur að leiknum við Tékka í troðfullri Laugardalshöll á sunnudaginn klukkan 16.

„Nú verðum við að læra af reynslunni, keyra upp hraðann, leika kerfin okkar rétt og vel. Stemningin í hópnum er flott og allir sem einn eru menn hungraðir í að gera betur. Afsakanir eru engar eftir leikinn á miðvikudaginn. Við ætlum að axla ábyrgð á tapi sem er algjörlega okkur að kenna,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.

Viðureign Íslands og Tékklands hefst í Laugardalshöll á sunnudaginn klukkan 16. Uppselt er á leikinn sem verður sá fyrsti sem fram er í Höllinni síðan í byrjun nóvember 2020.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -