- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eftirvænting hjá Harðarmönnum

- Auglýsing -

„Við höfðum búið okkur undir að það tæki fimm ár að komast upp í Grill-deildina en vegna ákvörðunar HSÍ í vor að liðka fyrir þátttöku liða í deildinni þá tók það okkur ekki nema ár að öðlast sætið,“ sagði Axel Sveinsson, aðstoðarþjálfari handknattleiksliðs Harðar á Ísafirði, þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans um miðja vikuna.  

Hörður leikur í kvöld sinn fyrsta leik í Grill 66-deild karla, næst efstu deild. Liðið mætir þá öðrum nýliðum deildarinnar, Vængjum Júpíters, í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Stálminnugir menn telja að rúmir tveir áratugir séu síðan Ísfirðingar og nærsveitamenn áttu síðast lið í næst efstu deild karlahandboltans.

Axel segir að fyrst og fremst ríki eftirvænting innan Harðarliðsins fyrir þátttökunni í deildinni í vetur. Vaxandi áhugi sé á meðal íbúa á Ísafirði sem auki enn eftirvæntinguna.

Heppni að fá strax heimaleik

„Við vorum heppnir að fá heimaleik í fyrstu umferð. Fyrir vikið er enn meiri eftirvænting í hópnum. Fáir leikmenn liðsins hafa leikið á svona háu getustigi fyrr á Íslandi. Fyrir utan Óla Björn og útlendingana sem við fengum þá hefur enginn leikið í deildinni áður. Flestir í hópnum eru strákar sem hafa komið upp í meistaraflokki í gegnum það uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið hjá Herði  á síðustu árum í yngri flokkum,“ segir Axel og bendir á að jafnaði æfi 16-17 menn með meistaraflokki.

„Á undanförnum árum höfum við verið að feta okkur áfram á þessari braut, það er í áttina að næst efstu deild. Alvaran og þunginn í æfingum og keppni hefur aukist ár frá ári með það fyrir augum að komast loks á þann stað að vera með lið sem getur tekið þátt í keppni  í Grilldeildinni,“ sagði Axel sem hugðist æfa af fullum krafti og leika með liðinu. Ekkert varð af þeim áformum. „Ég varð fyrir því óláni í sumar að slíta krossband. Þar með var tímabilið úr sögunni svo ég tók að mér að vera aðstoðarþjálfari hjá Carlos [Martin Santos],“ sagði Axel sem hefur leikið með Þrótti, neðri deildarliðum í Danmörku á ferlinum auk Harðar.

Mikilvæg styrking

Undirbúningur hefur gengið vel að sögn Axels. Harðarliðið fékk liðsstyrk á dögunum þegar þrír leikmenn frá Lettlandi bættust í hópinn, þar af var einn þeirra með Herði eftir áramótin og fram á vor í 2.deildinni. „Þessi viðbót hefur styrkt okkur verulega.“

Þjálfari Harðar er Spánverjinn Carlos Martin Santos sem búið hefur hér á landi í nokkur ár, er orðinn inngróinn Ísfirðingur.

Æfingar hjá Harðarliðinu hófust af krafti í sumar eins og hjá öðrum liðum sem taka þátt í Íslandsmótinu. „Við byrjuðum með heimastrákunum en síðan bættust erlendu leikmennirnir við þegar leið á. Þannig að nú er svo komið að við erum með nokkuð mótað lið.“

Vilja vera sem óskrifað blað

Axel segir Hörð ekki hafa fengið lið í heimsókn til æfingaleikja né hafi Hörður farið suður eða austur á bóginn til leikja. „Við höfum látið nægja að blanda liðunum okkar saman og leika æfingaleiki innan hópsins. Það var meðvituð ákvörðun að fara þessa leið. Við vitum sjálfir að við erum óskrifað blað og viljum vera þannig þar til flautað verður til fyrsta leiksins,“ segir Axel.

Axel segir að aðsókn á leiki Harðar á síðustu leiktíð hafi  vaxið jafnt og þétt. Margir bæjarbúar fylgist með og viti að liðið ætli að taka slaginn í deildinni. Hinsvegar sé ljóst að það taki tíma að mynda hefð fyrir að áhorfendur mæti. „Fleiri og fleiri vita af okkur og hvert við stefnum. Það er jákvætt og vonandi tekst að byggja ofan á áhugann, jafnt og þétt. Svo má ekki gleyma því að leikir okkar verða sendir út á youtube rás á vegum Viðburðastofu Vestfjarða eins og í fyrra. Þá eltu þeir hjá Viðburðastofunni okkur meira að segja suður í leiki. Þótt ágætt sé að fylgjast með leikjum okkar í tölvunni er enn skemmtilegra að mæta í íþróttahúsið og taka þátt í gleðinni þótt sannarlega verði allir að gæta vel að sóttvörnum,“ sagði Axel Sveinsson, aðstoðarþjálfari Harðar á Ísafirði er handbolti.is rabbaði við hann.

Leikir fyrstu umferðar Grill 66-deildar karla:

Föstudagur:

Torfnes: Hörður – Vængir Júpíters, kl. 19.30

Hertzhöllin: Kría – Fram U, kl. 20

Laugardagur:

Kórinn: HK – Selfoss U, kl. 13.30

Origohöllin: Valur U – Víkingur, kl. 15.45

Sunnudagur:

Schenkerhöllin: Haukar U – Fjölnir, kl. 17

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -