„Ég er heilt yfir sáttur með leikinn. Ég er ánægður með hvernig stelpurnar kláruðu þetta verkefni eftir mjög sérstaka daga. Ég átti þess vegna von á hverju sem er. Það er karakter í þeim,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir 12 marka sigur íslenska landsliðsins á landsliði Ísrael í fyrri umspilsleiknum um sæti á HM í kvöld.
Leikið var við sérstakar aðstæður í kvöld. Engir áhorfendur voru á leiknum og öryggisverðir og lögreglumenn um allt. Á sama tíma voru mótmæli vegna leiksins fyrir utan keppnisstaðinn. Meðal annars var barið og sparkað af miklu afli í dyr við neyðarútganga í síðari hálfleik. Þá var tónlist leikin meðan leikið var sem er óvenjulegt.
„Það hefur gengið á ýmsu síðustu daga en mér fannst stelpurnar klára þetta faglega. Við verðum að nýta tímann vel fram að næsta leik og ljúka verkefninu almennilega á morgun,“ sagði Arnar sem hefur 12 marka forskot fyrir síðari leikinn. „Við verðum að eiga aðra eins frammistöðu á morgun.“
Upplifum vonandi ekki aftur
Arnar sagði umgjörðina hafa verið sérstaka, ekki síst í síðari hálfleik.
„Það var svolítið sérstök stemning í síðari hálfleik þegar byrjað var að berja á dyrnar og tónlist var leikin yfir leiknum. Það var nokkuð sem við vonandi upplifum aldrei aftur.“

Eitthvað sem ég sætti mig ekki við
Sú staðreynd að við leikum fyrir tómu húsi. Við verðum að skoða ástæður þess að við treystum okkur ekki til þess að leika með áhorfendur í salnum. Það er eitthvað sem ég á mjög erfitt með að sætta mig við,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari.
Lengra viðtal við Arnar er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Stórsigur við sérstæðar aðstæður