- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég er eiginlega hálf orðlaus

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals frá 2017 til 2023. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Strax eftir leik þegar tilfinningarnar eru á fullu er kannski rétt að tala varlega. Ég er eiginlega hálf orðlaus en vafalaust má nota orðið magnað yfir frammistöðu liðs mína. Hún er vafalaust ein sú besta undir minni stjórn hjá mínu liði, ekki síst í þessari umgjörð og stemningu á sama tíma og mikið var undir hjá báðum liðum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals himinsæll með stórsigur á franska liðinu PAUC, 40:31, í Evrópudeildinni í handknattleik í Origohöllinni í kvöld.


Með sigrinum innsiglaði Valur öruggt sæti í 16-liða úrslitum keppninnar sem leikin verða 21. og 28. mars þótt enn sé ein umferð eftir af riðlakeppninni. Möguleikar PAUC eru á hinn bóginn orðnir litlir eftir tapið. Sennilega kemur fjórða sætið í hlut ungverska liðsins FTC.

Evrópudeildin – 9. umferð: úrslit og staðan

Er hrikalega stoltur

„Það var pressa á liðinu eftir tap í bikarnum í síðasta leik okkar. Menn sýndu einfaldlega að þeir eru alvöru karakterar. Ég er hrikalega stoltur af liðinu að hafa náð þessu, bæði sigrinum og sæti í 16-liða úrslitum,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.
Valur fór með þriggja marka forskot inn í hálfleikshléið, 19:16.

Komu ekki á óvart

Snorri Steinn sagðist hafa verið nokkuð afslappaður á þeim tíma þegar hann fór yfir málin með sínum mönnum. Leikmenn PAUC hafi leikið eins og við mátti búast. Þeir komu ekki á nokkurn hátt á óvart.

Vorum með þá undir stjórn

„Vandinn lá í þyngdarmuninum, nokkuð sem við vissum vel af fyrirfram. Það hjálpaði okkur mikið að Björgvin Páll varði mjög vel auk þess sem okkur gekk vel að skora í uppstilltum leik, nokkuð sem ég óttaðist fyrirfram að gæti reynst erfitt. Markvarslan og varnarleikurinn hefur verið mjög góður hjá PAUC-liðinu en við vorum með þá undir stjórn eftir fyrri hálfleikinn, fannst mér.

Var möguleiki að gera betur

Ég sagði við strákana í hálfleik að það væri möguleiki á að gera enn betur og sú varð raunin þegar kom fram í síðari hálfleik,“ sagði Snorri Steinn sem viðurkenndi að Valsliðið hafi alveg brotið franska liðið á bak aftur í síðari hálfleik og leikmenn liðsins nánast lagt árar í bát á síðustu mínútunum.

Voru brothættir

„Ég vissi að þeir væru brothættir vegna þess að það hefur gengið illa í vetur, bæði í Evrópukeppninni og í frönsku deildinni. Það er pressa á þjálfaranum. Auk þess vantaði tvo sterka leikmenn. Þar af leiðandi gerði ég mér grein fyrir að ef við næðum góðum tökum á leiknum þá myndu þeir hugsanlega missa móðinn.


Þrátt fyrir þessar staðreyndir var ekki sjálfgefið að okkur tækist að grípa tækifærið þótt það byðist. En við gerðum það svo sannarlega.

Allt gekk upp hjá okkur

Það gekk líka allt upp hjá okkur. Því má ekki gleyma. Björgvin var frábær í markinu. Bergur Elí var einnig magnaður með sex skot í sex tilraunum í sínum fyrsta heila Evrópuleik.

Varnarleikurinn small og hraðaupphlaupin skiluðu sér og færanýtingin var góð. Uppstilltur sóknarleikur gekk betur en við þorðum að vona.

Við þurfum svona leiki í keppninni til þess að vera með. Það má aldrei slaka á og það er kannski staðreynd sem við höfum lært af fyrri leikjunum. Ytra gegn PAUC vorum við yfir í síðari hálfleik en misstum dampinn og töpuðum.

Geta ekki slakað á í þessari stemningu

Ofan á annað þá var stemningin í húsinu stórkostleg. Í svona stemningu þá geta menn ekki slakað á,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is eftir sigurinn á PAUC í Origöhöllinni í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -