- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég er einfaldlega að lifa drauminn“

Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður og leikmaður Gummersbach. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Það hefur verið skemmtilegt að takast á við nýja hluti, flytja til útlanda og búa einn. Maður hefur þroskast mikið á hálfu ári. Það alltaf gaman að takast á við eitthvað nýtt og spennandi,“ sagði Eyjapeyinn Elliði Snær Viðarsson þegar hann settist niður með handbolta.is á dögunum á hóteli íslenska landsliðsins í Kaíró þar sem Elliði Snær er í eldlínunni með íslenska landsliðinu.


Elliði Snær, sem er 22 ára gamall, flutti með litlum fyrirvara til Gummersbach í Þýskalandi síðla í ágúst eftir að hafa skrifað undir tveggja ára samning með möguleika á þriðja árinu við samnefnt félag sem Guðjón Valur Sigurðsson tók við þjálfun á síðasta sumar eftir að hann rifaði keppnisseglin eftir einstakan feril sem leikmaður.

Æfir og leikur við reynslumenn

„Maður er að æfa með miklum reynslumönnum sem koma víða að úr Evrópu og sumir hafa leikið lengi í Þýskalandi. Liðin og leikmennirnir sem maður er fást við eru sterkari en þeir sem eru heima og gæði deildarinnar eru meiri en ég reiknaði með,“ segir Elliði Snær en Gummersbach er í þýsku 2. deildinni og stendur þar vel að vígi. Liðið hefur tapað fæstum stigum allra í deildinni til þessa en liðin hafa leikið mjög mismarga leiki vegna veirufaraldursins.

Elliði Snær í glímu við Marokkóbúa í leiknum í gærkvöld á HM. Mynd/EPA

Að venjast breyttu lífi

„Það tekur sinn tíma að venjast þessu lífi og að stunda ekki vinnu með handboltanum, geta nú alfarið einbeitt sér að honum. Fyrir vikið getur verið auðvelt að gleyma sér einn heima. En ég hef ekki yfir neinu kvarta. Ég er einfaldlega að lifa drauminn. Ef það er lítið að gera milli æfinga og leikja þá er það alfarið undir mér komið að finna mér eitthvað að gera. Það er ekki í boði að kvarta eftir að vera kominn í þessa stöðu sem ég er í,“ sagði Elliði Snær sem segir deildina vera sterkari en hann hafi reiknað með.

„frábært að hafa þjálfara sem þekkir leikinn út í gegn“


„Ég myndi segja að styrkleikinn væri vonum framar. Mér finnst allt lofa góðu hjá okkur. Leikmannahópurinn nær vel saman og árangurinn hefur verið góður til þessa,“ sagði Elliði.

Stærra hlutverk í sókninni

Spurður um stöðu sína innan liðsins segir Elliði Snær að hann leiki á tíðum sem fremsti maður í 5/1 vörn. „Við bökkum niður í innleysingum. Ég lék nú stundum 6/0 vörn með ÍBV en það sem kannski er nýtt fyrir mig er að vera í stóru hlutverki í 6/0 vörn. Ég hef verið að fóta mig áfram í þessu nýja hlutverki. Þess utan hef ég fengið stærra hlutverk í sóknarleiknum en ég hef verið í síðustu ár hjá ÍBV. Ég var í alvöru verkefni í Eyjum að keppa við hann Kára Kristján blessaðann,“ segir Elliði Snær.


„Ég tel mig hafa tekið hárrétt skref með flutningnum til Þýskalands þar sem ég hef meðal annars fengið stærra hlutverk í sóknarleik en áður. Ég er sáttur við mitt hlutverk innan Gummersbach-liðsins. Ég hef haft gott af því,” sagði Elliði Snær.

Guðjón Valur er stórt nafn

Guðjón Valur er ekki aðeins eitt stærsta nafnið í íslenskum handknattleik. Hann er það einnig í þýskum handknattleik. Um árabil lék Guðjón Valur með Gummersbah og var m.a. markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar á þeim árum. Elliði Snær segir að enginn velkist í vafa um stöðu Guðjóns Vals í þýskum handknattleik.

„Við megum samt ekki fara fram úr okkur þótt staðan sé góð“


„Hann er þekktur í bænum og hefur vafalaust meiri ítök vegna þess hver hann er. Guðjón Valur er góður þjálfari. Hann hefur ekki komið mér á óvart eftir allt það sem hann hefur afrekað. Eftir langan feril hefur hann úr stórum bunka af æfingum að velja eftir vist hjá mörgum af fremstu þjálfurum samtímans.

Það er frábært að hafa þjálfara sem þekkir leikinn út í gegn, utan vallar sem innan og hefur reynslu sem fyrirliði landsliðs og félagsliða til margra ára.“

Verðum að halda dampi

Eins og áður segir þá stendur Gummersbach vel að vígi í deildinni en tvö efstu liðin fara upp í 1. deild í vor. Enn er þó langur vegur eftir áður en að því kemur. Ekki er lokið nema ríflega þriðjungi leikja svo margt getur enn átt sér stað. Elliði Snær segir leikmenn vera vel meðvitaða um að hvergi megi slá af.


„Staðan okkar lofar góðu og ef við höldum áfram á sama róli eftir HM-hléið og við vorum á fyrir það þá erum við til alls líklegir. Við megum samt ekki fara fram úr okkur þótt staðan sé góð,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, nýbakaður landsliðsmaður og leikmaður þýska liðsins Gummersbach, eins þekktasta félagsliðs í þýskum handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -