„Ég er alsæll og mjög stoltur yfir að hafa komið japanska landsliðinu á Ólympíuleikana. Til þess var leikurinn gerður,“ sagði Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japan í handknattleik karla við handbolta.is en hann stýrði í gær Japan til sigurs í Asíuhluta forkeppni Ólympíuleikanna.
Japanska landsliðið vann Barein, sem Aron Kristjánsson þjálfar, 32:29, í úrslitaleik forkeppninnar sem fram fór í Doha í Japan. Barein fer þar af leiðandi í forkeppni sem fram fer í Evrópu í mars á næsta ári í þremur fjögurra liða riðlum ásamt fleiri landsliðum víða að úr Evrópu.
Japanska landsliðið vann allar sex viðureignir sínar á mótinu. Fyrir utan Ólympíuleikana 2021, sem haldnir voru í Japan, þá er þetta í fyrsta sinn frá árinu 1988 sem japanska landsliðið vinnur sér beint keppnisrétt í handknattleikskeppni Ólympíuleika.
Stóðu sig frábærlega
„Strákarnir stóðu sig frábærlega á mótinu. Þeir unnu hreint út sagt frábært afrek með því að ná þessum áfanga,“ sagði Dagur ennfremur og undirstrikar að árangurinn skiptir gríðarlegu máli fyrir japanskan handknattleik.
Covid setti mjög stórt strik í reikninginn við undirbúninginn og m.a. varð liðið að draga sig út úr forkeppni HM, Asíuhlutanum, árið 2022 vegna hópsmits innan liðsins. Það var mikið áfall fyrir liðið eftir að hafa leikið á tvennum heimsmeistaramótum á undan.
Mjög mikilvægt
„Japanska landsliðið hefur ekki komist af sjálfsdáðum inn á Ólympíuleika í nærri 40 ár. Þessi árangur er mjög stór fyrir japanskan handbolta. Ég er eiginlega hálf orðlaus yfir þessum árangri þegar hann er loksins í höfn eftir erfiða tíma,” sagði Dagur og bætti við að markið hafi verið sett fyrir fjórum árum að ná markmiðinu að komast á leikana en mörg ljón hafi verið í veginum. Þess vegna sé árangurinn enn sætari en ella.
Miklir erfiðleikar
„Auðvitað stefndum við á að ná þessu sæti en það var síður en svo auðvelt. Bæði var við harðsnúna andstæðinga að etja auk þess sem við höfum sem hópur glímt við mikla erfiðleika undanfarin ár. Strax og covid tók að breiðast út varð mjög erfitt um vik í Japan, strangar samkomutakmarkanir og erfiðleikar við að komast inn og út úr landinu og þar með um leið að halda hópnum saman.“
Fyrst og fremst þakklátur
„Það varð þar af leiðandi allt að ganga upp hjá okkur í þessu móti sem það gerði sem betur fer. Ég er fyrst og fremst mjög þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í að vinna þennan stóra áfanga fyrir japanskan handknattleik,“ sagði Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japan í handknattleik karla við handbolta.is.
Þjálfað landsliðið í sex ár
Dagur tók við þjálfun japanska landsliðsins 2017 eftir að hafa stýrt þýska landsliðinu í nokkur ár með frábærum árangri, m.a. gullverðlaunum á EM 2016 og bronsverðlaunum á Ólympíuleikunum sama ár. Hann er samningsbundinn japanska handknattleikssambandinu fram yfir Ólympíuleikana í París næsta sumar.
Þess má að lokum geta að Aron Kristjánsson stýrði Barein til sigurs í forkeppni Asíu fyrir Ólympíuleikana 2020 sem fóru reyndar ekki fram fyrr en árið eftir af vel þekktum ástæðum.
Dagur fer með japanska landsliðið á ÓL í París