„Það er klárt mál að ég fer með til Egyptalands. Ég hef fengið grænt ljós frá fjölskyldunni til að fara á HM og er bara fullur eftirvæntingar,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik karla spurður hvort hann færi með á heimsmeistaramótið í Egyptalandi. Hann og Karen Einardóttir eignuðust sitt fjórða barn 30. desember og því ekki auðvelt að fara að heiman og vera fjarri fjölskyldunni, ekki síst í langan tíma. Gangi allt að óskum hjá íslenska landsliðinu á HM verða leikmenn ekki væntanlegir heim fyrr en undir mánðarmótin næstu.
„Mér fannst bara ekki vera í boði að fara með landsliðinu til Portúgal í síðustu viku. Konan var nýbúin að fæða barn auk þess sem veikindi voru fyrir á heimilinu. Staðan er betri núna og ég er klár í bátana,“ segir Björgvin Páll sem viðurkennir að það hafi samt ekkert verið auðvelt að kveðja fjölskylduna við þessar aðstæður og fyrir svo langan tíma. „Það togaði aðeins í mig að vera heima. Ég er bara þakklátur öllum, bæði fyrir að fá frí frá leiknum ytra á miðvikudaginn var og eins fjölskyldunni fyrir að styðja mig til þess að fara með strákunum til Egyptalands á HM,” segir Björgvin Páll.
Vantar upp á leikformið
Björgvin Páll hefur leikið einn leik frá því í byrjun október þegar Olísdeildin var sett á ís vegna hertra sóttvarnareglna. Leikurinn eini var viðureign Íslands og Litháaen í undankeppni EM í byrjun nóvember. Björgvin Páll segist vera í betra æfingaformi nú en í byrjun nóvember þegar æfingar höfðu legið niðri í um mánuð.
„Eftir að opnað var fyrir æfingar snemma í desember hef ég verið á fullri ferð með félögum mínum í Haukum. Ég er í raun í æfingaformi. Mig vantar eitthvað upp á leikformið. Ég hef hinsvegar leikið millljón leiki og yfir 200 landsleiki sem ég reikna með að skili sér í einhverri reynslu. En vissulega veit ég ekki hver staðan er fyrr en á reynir. Við erum á hinn bóginn á leið inn í langt verkefni. Vegna þess að ég er í líkamlega og andlega í góðu standi treysti ég mér til þess að vera í standi til að takast á við það sem framundan er hjá okkur á næstu vikum í landsliðinu,“ sagði Björgvin Páll sem er leikreyndasti landsliðsmaðurinn í hópnum um þessar mundir með 230 landsleiki.
Er þriðji elsti í hópnum
„Ég tek því fagnandi að vera í hópi þeirra reynslumestu. Í síðasta landsleik var ég elstur en að þessu sinni bættust tveir eldri í hópinn, Alexander og Kári Kristjáns. Ég er þar með orðinn þriðji elstur og fagna því. Eftir því sem maður eldist og verður reyndari þá skiptir miklu máli að maður sé tilbúinn að nýta reynsluna og styðja við þá yngri. Í mínu hlutverki þá er ég elstur þriggja markvarða í hópnum. Ég hef með mér unga og efnilega markverði sem hafa tekið stór skref fram á við á síðustu árum. Vonandi get ég stutt við bakið á þeim og miðlað til þeirra af minni reynslu. Þeir taka væntanlega við af mér hvort sem það verður eftir eitt ár, tvö, fimm eða tíu ár,” sagði Björgvin Páll léttur í bragði.
Vill miðla af reynslunni
Ljóst er þrír markverðir verða í 20 manna leikmannahópnum sem fer til Egyptalands en auk Björgvins Páls eru Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson í HM-hópnum. „Flestar þjóðir taka með sér þrjá markverði á HM að þessu sinni. Bæði vegna sóttvarna og síðan er Egyptaland ekki alveg í næsta nágrenni og kannski enn lengra í burtu á þessum tímum þegar ferðalög eru ekki alveg eins einföld og þau voru. Við verðum þrír markverðirnir og höfum Tomas Svensson með okkur. Okkar markmið er að vinna sem ein heild. Leikirnir eru margir. Ég held að verkefnið í Egyptalandi verði skemmtilegt og lærdómsríkt,” sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is.