„Líðanin er bara mjög góð. Við erum byrjaður að búa okkur undir næsta leik. Ég er nokkuð ferskur vegna þess að Ýmir spilaði eiginlega allan síðari hálfleikinn. Ég á eitthvað inni á morgun og svo fékk ég ekkert spjald,“ sagði Elliði Snær Viðarsson léttur í bragði þegar handbolti.is settist niður með honum á hóteli íslenska landsliðsins í Zagreb í Króatíu í hádeginu í dag.
Elliði Snær lenti í samstuði undir lok leiksins í gærkvöld gegn Egyptalandi, fékk aðhlynningu hjá lækni og sjúkraþjálfara íslenska liðsins. Elliði Snær vildi lítið gera úr þessu í morgun.
„Ég fékk olnboga á kjálkann en það er ekkert sem ég finn fyrir í dag. Þurfti svo bara að vera utan vallar í þrjár sóknir.“
Einbeiting á næsta leik
Hugsun leikmanna íslenska liðsins og þjálfara er kominn á leikinn við Króata annað kvöld. Segja má að um úrslitaleik verði að ræða fyrir bæði lið. Tapi Króatar eiga þeir ekki lengur möguleika á sæti í átta liða úrslitum HM. Að sama skapi á íslenska liðið sæti í átta liða úrslitum víst með sigri. Reikna má með fullri höll áhorfenda, jafnvel allt að 10 þúsund.
Viljum halda í sigurhefðina
„Við ætlum ekki að slaka á heldur halda í þá sigurhefð sem ríkir innan hópsins á mótinu. Framundan er úrslitaleikur sem klárlega verður gaman að taka þátt í. Króatar munu henda öllu sem þeir eiga í leikinn. Við munum líka gera það,“ segir Elliði Snær Viðarsson.
Lengra viðtal við Elliði Snæ er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.