- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég svíf um á skýi“

Bjarki Már Elísson átti afar góðu gengi að fagna hjá Lemgo. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

„Ég svíf um á skýi. Ætli tilfinningunni sé ekki best lýst þannig,“ sagði Bjarki Már Elísson leikmaður Lemgo, nýkrýndra bikarmeistara í Þýskalandi þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans. Lemgo vann bikarkeppnina í fyrsta sinn í 19 ár á síðasta föstudag með sigri á Melsungen í úrslitaleik, 28:24. Daginn áður hafði Lemgo lagt sjálfa Evrópumeistara Kiel í undanúrslitum í hreint ótrúlegum leik, 29:28, þar sem Kiel var sjö mörkum yfir í hálfleik, 18:11.


„Sigurinn á Melsungen í úrslitaleiknum var frábær en það sem við gerðum í síðari hálfleik á móti Kiel í undanúrslitaleiknum var eitthvað magnað. Kiel er Evrópumeistari og við unnum síðari hálfleik með átta mörkum. Ég er ekki viss um að Kiel hafi oft tapað síðari hálfleik með átta mörkum í leik þar sem mikið er undir eins og í þessu tilfelli,“ sagði Bjarki Már og viðurkenndi að hann og fleiri leikmenn Lemgo hafi ekki verið upplitsdjarfir í hálfleik verandi sjö mörkum undir, 18:11. Þeir hafi ekki virst eiga mikla möguleika.

Útlitið var svart

„Ég get játað eftir á að maður velti fyrir sér hvernig hægt væri að spóla sig í gegnum síðari hálfleikinn á sem bestan hátt því við höfðum ekki átt möguleika í fyrri hálfleik. Leikmenn Kiel refsuðu okkur fyrir hver mistök sem við gerðum. Maður sá fram á að leikurinn endaði með ósköpum fyrir okkur með sama áframhaldi. Sem betur fer tókst okkur að snúa taflinu við á magnaðan hátt,“ sagði Bjarki Már.

Engin eldræða í hálfleik

„Við fórum út í síðari hálfleikinn með það í huga að fækka einföldum mistökum og komst þannig eins vel frá leiknum og mögulegt væri. Þjálfarinn sagði okkur að fara út á völlinn og njóta þess að leika síðari hálfleikinn. Við værum komnir í undanúrslitin, sem væri nokkuð sem margir fengju ekki tækifæri til á ferlinum. Hann flutti ekki neina eldræðu.
Þegar út á völlinn var komið þá fórum við smátt og smátt að saxa á forskotið. Mistökunum fækkaði og skyndilega vorum við komnir í leik,“ sagði Bjarki Már og bætti við að menn yrðu lengi að átta sig á því sem fram fór í síðari hálfleik.

Í annarri deild

Lemgo er í 11. sæti þýsku 1. deildarinnar, langt á eftir Kiel og Flensburg. Oft er sagt að Kiel og Flensburg séu í sinni eigin deild. Á eftir þeim koma nokkur lið s.s. Magdeburg, Rhein-Neckar Löwen og Füchse Berlin og fleiri lið sem berjast um sæti í Evrópukeppni félagsliða. Þar á eftir eru lið sem sigla lygnan sjó um og fyrir neðan miðjan deild. Lemgo er í þeim hóp.

„Það eru bara þrjú eða fjögur ár síðan Lemgo var nærri fallið úr 1. deild og hafði þá átt í talsverum fjárhagserfiðleikum frá 2010. Síðustu tvö ár hefur Lemgo rétt úr kútnum og tekist aðeins að nálgast hópinn fyrir neðan Kiel og Flensburg.“

Evrópukeppni á næsta vetri

Bjarki Már sagði sigur í bikarkeppninni hafi mikið að segja fyrir félagið. Sigrinum fylgir mikil umfjöllun og opnar um leið til þátttöku í Evrópukeppni félagsliða á næsta keppnistímabili sem er stór gluggi fyrir leikmenn og félagið.

Lemgo, bikarmeistari í Þýskalandi. Bjarki Már er þriðji f.v. í neðstu röð. Mynd/Lemgo-Lippe


Eins skipti sigurinn gríðarlegu máli fyrir traustan hóp stuðningsmanna en fámennur hópur fékk að sækja leikina tvo í undanúrslitum og í úrslitum bikarkeppninnar í Hamborg. Alls máttu 2.000 áhorfendur vera á leikjunum.

Engin hátíð við heimkomu

„Því miður gátum við ekki fagnað með íbúum í Lemgo þegar heim var komið þar sem bann ríkir enn við samkomum. Við fengum þó að hafa eitthvað af stuðningsmönnum í höllinni sem var frábært eftir að hafa leikið fyrir tómum húsum í allan vetur.“

Til í að vaða yfir eld og brennistein

Bjarki Már sagði að eftir síðari hálfleikinn í undanúrslitum gegn Kiel hafi sjálfstraustið verið slíkt að í úrslitaleiknum daginn eftir á móti Melsungen að leikmenn Lemgo hefðu getað vaðið yfir eld og brennistein.


„Við vorum reyndar þremur mörkum undir eftir um 20 mínútur, en tókst að jafna á 50 sekúndum eða svo. Í hálfleik vorum við komnir með þriggja marka forskot. Í síðari hálfleik lék aldrei vafi á að við ynnum leikinn. Tökin á leiknum voru í okkar höndum. Menn voru með brjóstkassann vel þaninn eftir sigurinn á Kiel. Ég held að það hefði nánast engu máli skipt hvaða liði við hefðum mætt í úrslitaleiknum, sjálfstraustið var slíkt,“ sagði Bjarki Már Elísson, leikmaður bikarmeistara Lemgo í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -