HC Vardar Skopje verður meinuð þátttaka í Meistaradeild karla í handknattleik á næstu keppnistímabili. Handknattleikssamband Evrópu (EHF) sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þessu til staðfestingar. Vardar hefur unnið Meistaradeildina í tvígagng, 2017 og 2019.
Hafa virt að vettugi og skellt skollaeyrum við
Í tilkynningu EHF segir m.a. að reynt hafi verið á undanförnum árum að vinna með forsvarsmönnum Vardar við að greiða úr vanda félagsins vegna skulda. Þar á meðal eru ógreidd laun til leikmanna liðsins nokkur ár aftur í tímann.
Forvígismenn Vardar hafi virt að vettugi tímasettar áætlanir sem gerðar voru um greiðslu skuldanna. Þær hafi annað hvort ekki borist eða þá seint og illa. Eins hafi forsvarsmenn skellt skollaeyrum við viðvörunum og jafnvel ekki haft fyrir að svara bréfum og áskorunum.
Gengur ekki lengur
Ekki verður við svo búið lengur án þess að grípa hressilega í taumana að mati framkvæmdastjórnar EHF sem afgreiddi málið á fundi sínum síðasta föstudag.
Mihajlo Mihajlovski, forseti Vardar, hefur m.a. borið við að félagið eigi inni fjármuni hjá EHF. Þar af leiðandi geti félagið ekki staðið við skuldir sínar.
Hafa fengið og fá greitt
EHF tekur fram að Vardar hafi þegar verið endurgreidd trygging sem félagið lagði fram áður en það hóf keppni í Meistaradeild Evrópu síðasta haust. Á næstu dögum verði félaginu einnig greiddar tekjur af þátttöku sinni í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni sem lauk á sunnudaginn.
Getur dregið dilk á eftir sér
Ljóst er að ákvörðun EHF mun hafa mikil áhrif á Vardarliðið. David Davis þjálfari liðsins lýsti því yfir á dögunum að hann ætlaði að segja starfi sínu lausu ef liðinu yrði meinuð þátttaka í Meistaradeildinni. Viðbúið er að los komist á leikmannahópinn og óvíst hvort stórir styrktaraðilar haldi samstarfi sínu áfram.
Ekki kemur fram í tilkynningu EHF hvort annað lið frá Norður Makedóníu taki sæti Vardar í Meistaradeildinni á næstu leiktíð eða að sæti landsins verði fært yfir til annarrar þjóðar.
Auk þess að vinna Meistaradeildina 2019 stóð lið Vardar einnig uppi sem sigurvegari í deildinni 2017.