Þýska meistaraliðinu hefur verið vikið úr Meistaradeild Evrópu í handknattleik kvenna eftir að það sagði upp öllum sínum leikmönnum í gær. Norska úrvalsdeildarliðið Sola HK frá Stafangri tekur sæti Ludwigsburg í B-riðli Meistaradeildar. Sola HK var eitt þriggja liða sem var synjað um sæti í Meistaradeildinni áður en dregið var í riðla í lok júní.
Handknattleikssamband Evrópu tilkynnti um þátttöku Sola HK í dag um leið og forráðamönnum HB Ludwigsburg var gert að draga skip sitt í naust með skömm í hatti.
Með Sola HK í riðli verða Odense Håndbold, CSM Búkarest, Krim Mercator Ljubljana, FTC (Ferenváros), HC Podravka, Brest Bretagne og Ikast Håndbold. Fyrsti leikur Sola HK verður gegn HC Podravka í Kopricnica í Króatíu laugardaginn 6. september.
Málinu er ekki lokið
Vika er síðan frestur forráðamanna HB Ludwigsburg og þýska handknattleikssambandsins rann út til þess að leggja öll spil á borðið hjá EHF vegna þátttöku Ludwigsburg í keppninni á komandi leiktíð. EHF segir í tilkynningu sinni í dag að það sé með til skoðunar hjá sér hvort sambandið sæki rétt sinn gagnvart HB Ludwigsburg og þýska handknattleikssambandinu.
Sambandið í vondum málum
Þýska sambandið skrifað upp á fjárhagslegt heilbrigðisvottorð HB Ludwigsburg með umsókn félagsins um sæti í Meistaradeildinni. Sambandið gæti þar með verið í vondum málum gagnvart EHF.
Margt bendir til þess að pottur hafi verið brotinn í umsókninni því þar kom ekkert fram sem benti til að fjárhagur HB Ludwigsburg væri í molum eins og kom á daginn fáeinum vikum síðar þegar rekstrarfélag liðsins óskaði eftir gjaldþrotaskiptum við yfirvöld í Stuttgart.
Nítján lið sækjast eftir sextán sætum
EHF krefst tafarlausra svara frá Þýskalandi