Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur gefið þýska handknattleiksliðinu HB Ludwigsburg frest til mánudagsins 28. júlí til að gera hreint fyrir sínum fjárhagslegu dyrum eftir að rekstrarfélag liðsins fór fram á gjaldþrotaskipti í fyrradag. Vafi leikur á framtíð liðsins eins og sakir standa. Fram kom í fregnum frá Þýskalandi í gær að stjórnendur félagsins rói lífróður til að forðast skipbrot.
EHF vill fá mál félagsins á hreint sem fyrst enda er það eitt sextán liða sem skráð eru til leiks í Meistaradeild kvenna á komandi leiktíð. EHF kærir sig ekki um að annað keppnistímabilið í röð heltist lið úr lestinni eftir að keppni er hafin í Meistaradeild kvenna.
Á sama tíma hefur EHF farið þess á leit við þýska handknattleikssambandið að það leggi öll spil á borðið sem snúa að samskiptum HB Ludwigsburg og sambandsins hvað varðar fjárhagsstöðu félagsins.
Sambandið skýri aðkomu sína
Þýska sambandið skrifað upp á fjárhagslegt heilbrigðisvottorð HB Ludwigsburg með umsókn félagsins um sæti í Meistaradeildinni. EHF vill fá skýr svör hvernig standi á að sambandið hafi skrifað upp á umsóknina þegar ekki er haft yfir vafa að HB Ludwigsburg hafi fjárhagslega burði til þess að komast í gegnum leiktíðina.
Getur vísað liði úr keppni
EHF getur vísað HB Ludwigsburg úr keppni í Meistaradeildinni ef það stenst ekki fjárhagslegar kröfur og kallað inn lið í staðinn. Færri lið fengu sæti í Meistaradeildinni en óskir voru um. Sola HK og Tertnes Bergen frá Noregi var synjað um þátttöku auk rúmenska liðsins CS Minaur Baia Mare.
Segja stöðuna vera mjög erfiða – leggja ekki árar í bát
Eru þýsku meistararnir gjaldþrota?