Einar Bragi Aðasteinsson skoraði tvö mörk í tveimur skotum og gaf auk þess tvær stoðsendingar þegar lið hans, IFK Kristianstad, lagði meistara síðasta tímabils, IK Såvehof, 32:26, á heimavelli í kvöld í 16. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik.
IFK Kristianstad heldur þar með öðru til þriðja sæti deildarinnar ásamt HK Karlskrona sem einnig vann viðureign sína í kvöld. IK Sävehöf er á hinn bóginn orðið tveimur stigum á eftir liðunum tveimur í fjórða sæti.
Tryggvi Þórisson var ekki með IK Sävehof í kvöld. Þetta er a.m.k. þriðji leikurinn í röð sem Tryggvi verður af. Færeyingurin Óli Mittún náði sér ekki á strik, skoraði aðeins þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar. Munar um minna fyrir Sävehof-liðið sem reiðir sig mjög á piltinn.
Höfðu hægt um sig
Íslendingarnir höfðu hægt um sig hjá HK Karlskrona í sigurleiknum á Hallby, 33:26. Hvorki Dagur Sverrir Kristjánsson né Ólafur Andrés Guðmundsson skoruðu. Dagur átti eitt markskot sem rataði ekki í netið. Ólafur Andrés átti ekki markskot gaf tvær stoðsendingar.
Eins og kom fram á handbolti.is í morgun þá er Þorgils Jón Svölu Baldursson leikmaður Karlskrona á Íslandi þessa dagana að leita sér lækninga við langvarandi nárameiðslum.
Eftir stórleik á dögunum gegn Önnereds þá sat Phil Döhler sem fastast á varamannabekknum hjá Karlskrona að þessu sinni. Kollegi hans, Urs Tomic var vel með á nótunum og varði 15 skot, 38%.
Stóðu í toppliðinu
Arnar Birkir Hálfdánsson og félagar í Amo HK stóðu í efsta liði deildarinnar, Ystads IF, á heimavelli en urðu að lokum að sætta sig við eins marks tap, 27:26. Arnar Birkir skoraði sex mörk í 11 skotum. David Larsson markvörður Amo átti stórleik, varði 20 skot, 43%.
Amo situr sem fastast í 12. sæti af 14 liðum með 10 stig, er þremur stigum á eftir Alingsås en fimm stigum fyrir ofan Guif sem má muna sinn fífil fegurru frá því fyrir nokkrum árum þegar það var í toppbarátti með Kristján Andrésson við stjórnvölin.
Staðan í sænsku úrvalsdeildinni í karlaflokki: