- Auglýsing -

Einar verður að súpa seyðið af ummælum sínum – Birgir í bann

Einar Jónsson, þjálfari Fram mátti bíta í það súra epli að tapa í kvöld. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Einar Jónsson þjálfari karlaliðs Fram í handknattleik var í dag úrskurðaður í eins leiks bann af aganefnd HSÍ vegna ummæla sinna í samtali við Stöð2/Vísir að lokinni viðureign FH og Fram í Olísdeild karla á síðasta fimmtudag.


Ummælin sem um ræðir eru m.a. eftirfarandi: „Gauti bombar í andlitið á honum, ég held hann þoli ekki þennan gaur þannig að ég skil það vel að hann hafi bombað í andlitið á honum.“


Framkvæmdastjóri HSÍ vísaði ummælunum til aganefndar sem segir í úrskurði sínum að ummælin feli í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Aganefnd telur því ljóst að umrætt atvik falli undir 18. grein reglugerðar HSÍ um agamál og efni standi til að láta þjálfarann sæta viðurlögum í máli þessu.


Ennfremur kemur fram í úrskurði aganefndar að Einar hafi beðist afsökunar á ummælum sínum sem sett hafi verið fram í gríni og hafi ekki átt að særa neinn.


Einar verður þar með ekki við stjórnvölin hjá Fram á föstudaginn þegar liðið fær Íslandsmeistara Vals í heimsókn í Úlfarsárdal í fimmtu umferð Olísdeildarinnar.

Fleiri fengu leikbann

Birgir Steinn Jónsson leikmaður Gróttu var úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar en hann hlaut útilokun með skýrslu í viðureign Aftureldingar og Gróttu á Varmá í síðustu viku.

Þorsteinn Leó Gunnarsson leikmaður Aftureldingar fékk þung högg við byltuna sem hann hlaut eftir að Birgir Steinn Jónsson leikmaður Gróttu, t.h. stöðvaði hann í leiknum að Varmá á síðasta fimmtudag. Mynd/Raggi Óla


Einnig voru teknir fyrir útilokanir sem Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, Fram, og Stefán Rafn Sigurmannsson, Haukum, fengu í leikjum í 4. umferð Olísdeildar í síðustu viku. Þeir sluppu hinsvegar með áminningu um leið og athygli þeirra er vakin á stighækkandi áhrifum útilokana vegna slíkra brota.


Úrskurð aganefndar í heild sinni má lesa hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -