- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eistar voru rassskelltir í Laugardalshöll

Íslenska landsliðið í handknattleik karla leikur við Eistlendinga í Laugardalshöll. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið gjörsigraði slakt lið Eistlendinga, 50:25, í fyrri viðureign þjóðanna í umspili um sæti á HM karla 2025 í Laugardalshöll í kvöld. Án verulegs hroka er hægt að fullyrða að íslenska landsliðið hefur tryggt sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Danmörku, Noregi og Króatíu í janúar á næsta ári. Staðan var 26:12 að loknum fyrri hálfleik.

Íslenska liðið var með 96% skotnýtingu í fyrri hálfleik og alls 87% í leiknum í heild.

Síðari viðureignin fer fram í Tallinn í Eistlandi á laugardaginn og víst er að um formsatriði verður að ræða að mæta til leiks. Engar líkur er á að íslensku piltarnir spili rassinn úr buxunum eftir þá einstefnu sem átti sér stað í Laugardalshöll.

Leikmenn íslenska landsliðsins mættu afar vel einbeittir til leiks í kvöld. Þeir yfirspiluðu Eista frá upphafi undir stjórn fyrirliðans Ómars Inga Magnússonar. Ekki stóð steinn yfir steini í varnarleik Eista og sóknarleikurinn var ekki upp á marga fiskana. Íslensku varnarmennirnir sýndu enga miskunn auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson varði afar vel, alls 11 skot
Þrátt fyrir tvö leikhlé Martin Noodla landsliðsþjálfara Eista þá tókst honum ekki að hressa sína leikmenn við. Leikurinn breyttist í sýnikennslu í handknattleik.

Hafi einhver haldið að íslenska liðið slakaði á klónni í síðari hálfleik þá reyndist ekki svo vera. Menn héldu áfram á fullum dampi til leiksloka sem var virðingarvert því oft vilja svona ójafnir leikir leysast upp í hreina dellu.

Orri Freyr Þorkelsson skoraði 50. markið rétt áður en leiktíminn var úti og ár og dagur síðan landsliðið hefur skorað 50 mörk í leik, hvað þá í mótsleik.

Nýliðinn Einar Bragi Aðalsteinsson fékk að láta ljós sitt skína síðustu sjö mínúturnar. Þrátt fyrir ákafar tilraunir tókst honum ekki að skora. Það kemur næst því víst er að leikir hans eiga eftir að verða fleiri.

Mörk Íslands: Ómar Ingi Magnússon 12/3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 8, Elliði Snær Viðarsson 7, Orri Freyr Þorkelsson 7, Janus Daði Smárason 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Viggó Kristjánsson 3, Bjarki Már Elísson 2, Björgvin Páll Gústavsson 2, Ágúst Elí Björgvinsson 1, Einar Þorsteinn Ólafsson 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 14, 43,75% – Ágúst Elí Björgvinsson 0.

Mörk Eistlands: Dener Haanimaa 7, Karl Toom 5, Hendrik Koks 4, Aleksander Pertelson 2, Alvar Soikka 2, Mait Patrain 1, Otto Karl Kont 1, Simon Drögin 1, Mathuas Rebane 1, Karl Roosna 1, David Mamporia 1.
Varin skot: Armis Priskus 4, 12,1% – Rasmus Ots 0.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -