- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekkert annað að gera en að gefa sig alla í verkefnið

Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður BSV Sachsen Zwickau. Mynd/Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik og stöllur hennar í þýska 1. deildarliðinu BSV Sachsen Zwickau mættu til leiks í gær á nýjan leik eftir þriggja vikna fjarveru frá kappleikjum eftir að kórónuveiran stakk sér niður í herbúðir liðsins í framhaldi af leik við Oldenburg 22. janúar.

BSV Sachsen Zwickau tók á móti hinu sterka liði Buxtehuder og tapaði með sjö marka mun, 35:28, á heimavelli eftir að hafa verið sjö mörkum undir, 19:12, í hálfleik.


„Við fengum ekki langan tíma til að jafna okkur og það ekkert annað að gera en að gefa sig allan í verkefnið þrátt fyrir það,“ sagði Díana Dögg en flestir leikmenn liðsins veiktust og fundu nokkrir fyrir talsverðum veikindum. Voru leikmenn að týnast til æfinga hver á fætur öðrum í vikunni. Þar af leiðandi var undirbúningurinn ekki eins og best var á kosið.


Díana Dögg lagði sig alla fram í leiknum í gær. Hún skoraði m.a. fimm mörk, vann fimm vítaköst og átti þrjár stoðsendingar. Einnig lét hún til sín taka í vörninni.


„Við töpuðum fyrst og fremst á lélegri markvörslu. Fórum einnig illa með ótal dauðafæri og allt of mikið af sendingarfeilum og hraðaupphlaup í bakið. Við náðum þó að halda jöfnu í síðari hálfleik þrátt fyrir enga markvörslu,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is en markvarslan hefur verið Akkilesarhæll liðsins á keppnistímabilinu.


Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau verður á miðvikudagskvöld á heimavelli þegar liðsmenn Thüringer HC koma í heimsókn.


BSV Sachsen Zwickau er í 12. sæti af 14 liðum deildarinnar en torsótt er að lesa í stöðuna þar sem liðin hafa leikið frá 11 og upp í 15 leiki enda hefur leikjadagskráin farið talsvert úr skorðum síðustu vikur vegna veirunnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -