- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekkert annað að gera en að keyra beint á þetta

Katla María Magnúsdóttir verður í landsliðinu gegn Svíum á Ásvöllum í kvöld. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Það ótrúlega gaman að fá að taka þátt og mjög styrkjandi fyrir mig að fá tækifæri til þess að koma inn á völlinn, tækifæri sem ég hef beðið eftir því auðvitað vill maður vera með í öllum leikjum,“ sagði Katla María Magnúsdóttir landsliðskona og leikmaður Selfoss í samtali við handbolta.is í gær eftir sigurleikinn á Grænlendingum, 37:14, í forsetakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í Nord Arena í Frederikshavn í Danmörku.

Kom inn með skömmum fyrirvara

Katla María var kölluð inn með skömmum fyrirvara í landsliðshópinn rétt fyrir brottför til Noregs síðla í nóvember. Hún lék sína fyrstu landsleiki á ferlinum á æfingamótinu áður en HM hófst en sat síðan utan liðs í þremur fyrstu viðureignum Íslands á HM. Í gær fékk hún tækifærið, lék síðasta stundarfjórðunginn eða þar um bil, skoraði tvö mörk og var einu sinni vikið af leikvelli. Katla María lét þar með finna fyrir sér á báðum endum leikvallarins.

Ánægð með sitt framlag

„Það hefur reynt á þolinmæðina að bíða eftir tækifærinu með liðinu á mótinu. Nú kom að því og ég bara ánægð með hvernig mér gekk að nýta þann tíma sem ég fékk,“ sagði Katla María sem hefur verið ein burðarása Selfossliðsins og var til að mynda næst markahæst í Olísdeildinni á síðustu leiktíð.

Mitt aðaláhugamál

„Það var ekkert annað en að keyra beint á þetta allt saman. Ég kann vel að spila leikinn og það var ekkert hik á mér þegar tækifærið gafst. Í stöðunni kom ekki annað til mála en að láta að sér kveða sem fyrst. Handboltinn er mitt aðaláhugamál og mér finnst ég hafa unnið fyrir tækifærinu. Ég er sátt við minn tíma á vellinum í kvöld,“ sagði Katla María ennfremur.

Agaðar til leiksloka

„Þar á ofan var sigurinn ótrúlega flottur hjá okkur. Við lékum af krafti allt til enda leiksins og vorum agaðar eins og lokastaðan gefur til kynna. Héldum alveg út. Það þarf þolinmæði og aga til þess að ljúka leikjum eins vel og við gerðum,“ sagði Katla María Magnúsdóttir.

Næsti leikur íslenska landsliðsins verður á morgun, laugardag, við landslið Paragvæ. Viðureignin hefst klukkan 17 í Nord Arena í Frederikshavn. Handbolti.is er í Frederikshavn og fylgir íslenska landsliðnu til leiksloka á HM á næsta miðvikudag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -