- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekkert EM kvenna í Noregi

Tonje Larsen aðstoðarþjálfari norska landsliðsins og Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs, stýra ekki norska landsliðinu á EM á heimavelli að þessu sinni. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Noregur verður ekki annar gestgjafi EM kvenna í handknattleik í desember. Norska handknattleikssambandið tilkynnti í morgun að það treysti sér ekki til þess að halda mótið en um 60% af leikjum þess átti að fara fram þar í landi, nánar tiltekið í Þrándheimi. Þar á meðal úrslitaleikurinn 20. desember.

Norðmenn segja að útilokað sé að undanþága verði gerð frá ströngum sóttvarnareglum sem gilda í Noregi þannig að sömu reglur gildi um keppendur sem leika í Danmörku og í Noregi en þjóðirnar ætluðu að halda mótið í sameiningu.

Í Noregi stóð til að sú regla gilti að ef einn leikmaður greindist smitaður færi lið hans heim og væri úr leik. Ekki nóg með það heldur átti að senda andstæðinga liðs hins smitaða einnig til síns heima. Í Danmörku stendur til að láta nægja að senda smitaðann leikmann heim.

Til stendur að keppni á EM hefjist 3. desember.

Beðið er viðbragða Handknattleikssambands Evrópu, EHF, við þessum tíðindum sem koma ekki á óvart. Væntanlega tekur EHF ákvörðun í dag í samvinnu við danska handknattleikssambandið. Danskir fjölmiðlar segja forsvarsmenn EHF og danska handknattleikssambandsins liggja undir feldi.

Per Bertelsen, formaður danska handknattleikssambandsins hefur látið hafa eftir sér að Danir geti haldið mótið í heild ef EHF eða einhver annar er tilbúinn að greiða kostnaðinn við færa Noregshluta mótsins til Danmerkur.

Morten Stig Christensen, framkvæmdastjóri danska handknattleikssambandsins, sagði í morgun í samtali við TV2 í Danmörku, að stefnt væri á að það liggi fyrir á morgun hvort Danir taka að sér allt mótahaldið eða ekki. Dagurinn í dag fari svara þeirri spurningu hvort hægt væri að fjármagna viðbótina í Danmörku. Ef það tekst sagðist Christensen ekki sjá önnur ljón í veginum fyrir að EM verði í heild sinni haldið í Danmörku.

Ljóst er að annað hvort verður mótið fellt niður eða að danska handknattleikssambandið taki alfarið að sér mótahaldið.

Fréttin hefur verið og verður uppfærð.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -