Ekkert hefur spurst til tíu leikmanna landsliðs Búrúndí sem stungu af frá hóteli liðsins á meðan á heimsmeistaramóti 19 ára landsliða karla stóð yfir í Króatíu.
Vika er liðin í dag síðan síðast sást til piltanna. Lögreglan í Króatíu hefur einskis orðið vísari í leit sinni sem hófst nokkrum klukkustundum eftir að piltarnir hurfu nánast sporlaust frá gistiheimili sínu í Rijeka við Adríhafsströnd Króatíu.
Opið innan Evrópu
Króatíu er hluti af Schengen-svæðinu svokallaða. Þar af leiðandi er ekkert vegabréfaeftirlit þegar landið er yfirgefið. Piltarnir geta þar með farið innan Schengen-svæðisins án þess að vera krafðir um vegabréf og þannig fallið í fjöldann.
Til Frakklands
Ekki er talið ósennilegt að piltarnir hafi átt sér vitorðsmenn við flóttann. Grunur beinist að því að hugsanlega fari piltarnir til Frakklands en talið er að þeir séu flestir, ef ekki allir, frönskumælandi. Franska er eitt þeirra mála sem talað er í Búrúndi.
Óttast mansal
Margir óttast að piltarnir, sem eru 18 og 19 ára, verði fórnarlömb mansals í Evrópu og til þeirra muni aldrei spyrjast á nýjan leik. Forseti handknattleikssambands Búrúndí hefur óskað eftir að piltarnir gefi sig fram og beðið lögregluyfirvöld í grannríkjum Króatíu um aðstoð við leitina.
Búrúndí, sem er eitt fátækasta land heims, tók að þessu sinni í fyrsta sinn þátt heimsmeistaramóti í handknattleik í karlaflokki.
U19 ára landsliðið var skipað 13 piltum og af þeim sneru aðeins þrír heim á ný um nýliðna helgi.