Tíu leikmenn 19 ára handknattleiksliðs Afríkuríkisins Búrúndí fara huldu höfði í Króatíu eftir að þeir stungu af frá hóteli liðsins í borginni Opatija síðastliðna nótt eða snemma í morgun.
Tíumenningarnir eru uppistaðan í landsliði Búrúndi sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem staðið hefur yfir í Króatíu frá 2. ágúst.
Franski netmiðillinn Handnews segir í kvöld frá þessu en ekki er staf að finna á heimasíðu heimsmeistaramótsins né af hverju ekkert varð af leik Búrúnda í dag. Handnews segir að lögreglan í Króatíu leiti logandi ljósi að leikmönnunum en talið er sennilegt að þeir ætli sér ekki heim til Búrúndi á nýjan leik. Tíumenningarnir eru fæddir 2006.
Landslið Búrúndi átti að leika við landslið Barein í Rijeka upp úr hádeginu. Leikurinn féll niður vegna flótta meirihluta leikmanna landsliðs Búrúndí sem hefur ekki áður tekið þátt í heimsmeistaramóti í handknattleik í þessum aldursflokki.
Búrúndí er eitt fátækasta land heims.