- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ekkert virðist getað stöðvað Hauka

Halldór Ingi Jónasson skoraði fimm mörk gegn Aftureldingu í dag. Mynd/Haukar
- Auglýsing -

Haukar unnu öruggan sigur á lánlitlum leikmönnum Aftureldingar, 33:25, í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld. Haukar halda þar með áfram góðu forskoti í efsta sæti deildarinnar þegar liðið á fjóra leiki eftir og virðist ekkert ætla að koma í veg fyrir að liðið verði deildarmeistari. Í hálfleik höfðu Haukar sjö marka forskot, 18:11.


Haukar voru skrefinu á undan allan fyrri hálfleikinn. Forskot liðsins var eitt til tvö mörk þar til á lokamínútunum að Mosfellingum féll allur ketill í eld hvað eftir annað í vörninni, nokkuð sem Haukar voru ekki lengi að færa sér í nýt. Á fjögurra mínútna kafla breyttist staðan úr 13:10 í 18:11 eftir að hvert hraðaupphlaupsmarkið hafði dunið á marki Aftureldingar eftir klaufaskap í sókninni.


Annars var varnarleikurinn aðal liðanna í fyrri hálfleik. Markvarslan var fremur slök og ljóst að Afturelding saknar mjög Arnórs Freys Stefánssonar sem er meiddur. Fjarvera hans á þó ekki að hamla sóknarleiknum sem hefði getað verið betri.


Ekki dró saman með liðunum á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks. Að þeim tíma liðnum var munurinn sjö mörk, 25:18. Tíu mínútum fyrir leikslok var munurinn 10 mörk, 28:18. Mest skildu 11 mörk liðin að.
Haukar undirstrikuðu enn einu sinni hversu öflugu liði þeir hafa á að skipa. Þeir hafa tvo góða menn í hverja stöðu, jafnt í vörn sem sókn. Góð vörn færir liðinu mörg hraðaupphlaup sem léttir mjög róðurinn.


Sóknarleikur Aftureldingar var dapur að þessu sinni. Of mikið var um slakar sendingar samherja á milli auk þess sem nokkuð af skotum rötuðu ekki á markið heldur framhjá því eða yfir. Blær Hinriksson var allt í öllu og stundum einum of frekur til fjörsins. Besti hægri hornamaður deildarinnar á síðustu leiktíð, Guðmundur Árni Ólafsson fékk varla sendingu. Áður hefur verið minnst á markvörsluna.


Mörk Hauka: Geir Guðmundsson 7, Halldór Ingi Jónasson 5, Ólafur Ægir Ólasson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 4/1, Atli Már Báruson 3, Þráinn Orri Jónsson 3, Tjörvi Þorgeirsson 3, Orri Freyr Þorkelsson 2, Heimir Óli Heimisson 1, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 7, 30,4% – Andri Sigmarsson Scheving 1, 11,1%.
Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 13/4, Bergvin Þór Gíslason 3, Þrándur Gíslason Roth 2, Einar Ingi Hrafnsson 2, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Guðmundur Árni Ólafsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 5, 25% – Björgvin Franz Björgvinsson 1, 5,3%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz. Staðan í Olísdeild karla.

Ekkert varð úr endurkomu Gunnars Magnússonar þjálfara Aftureldingar á fornar slóðir í Schenkerhöllinni eins og minnst var á í morgun á handbolta.is. Gunnar er í sóttkví þessa dagana eftir að hafa verið á ferð með íslenska landsliðinu í síðustu viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -