- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ekki er verra að fá smá pressu“

Ásdís Þóra Ágústsdóttir fer til Lundar í Svíþjóð í sumar. Mynd/Lugi
- Auglýsing -

„Ég mjög spennt fyrir að taka þetta skref,“ sagði Ásdís Þóra Ágústsdóttir handknattleikskona hjá Val í samtali við handbolta.is í framhaldi af fregnum morgunsins um að hún hafi skrifað undir tveggja ára samning við sænska úrvalsdeildarliðið Lugi í Lundi í Svíþjóð.


Ásdís Þóra sagði aðdragandi þessa hafi verið skammur. Ekki væri nema um þrjár vikur síðan hún heyrði fyrst í forráðamönnum sænska félagsins í gegnum umboðsmann.

Frábært félag

„Það hefur verið markmið mitt að fara út í atvinnumennsku með tíð og tíma og ná sem lengst í handboltanum. Af þeim sökum var erfitt að horfa framhjá áhuga Lugi. Eftir því sem ég kemst næst þá er þetta frábært félag með framúrskarandi þjálfara auk þess sem flestir leikmenn eru á mínum aldri. Þannig að þetta er eiginlega of gott til að vera satt,“ segir Ásdís Þóra í sjöunda himni.

„Ég hef elt pabba á æfingar síðan ég var smástelpa“

Hún hefur alist upp í miklum tengslum við handknattleik. Faðir hennar er Ágúst Þór Jóhannsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og núverandi þjálfari kvennaliðs Vals sem þjálfaði félagslið í Noregi og í Danmörku um árabil. Móðirin, Sigríður Unnur Jónsdóttir, er heldur ekki laus við handboltabakteríuna.

Lengi elt pabba á æfingar

„Ég hef elt pabba á æfingar síðan ég var smástelpa og fylgst með af áhuga. Pabbi hefur þjálfað víða, til dæmis í Noregi og Danmörku og mörg lið hér heima. Það hefur ýtt undir áhugann en einnig orðið til þess að ég er aðeins inni í Norðurlandamálunum sem léttir mér róðurinn þegar ég flyt út,“ sagði Ásdís Þóra sem fer til Lundar í sumar en samningur hennar við Lugi tekur gildi 1. júlí.

Tveggja ára samningur

„Um er að ræða lánssamning til tveggja ára þar sem ég get komið heim eftir ár ef þetta verður algjört bíó. Ég stefni á að halda áfram og flytja ekki heim eftir tvö ár. Mig langar að ná langt,“ sagði Ásdís Þóra sem flytur ein út en segist reikna með að móðir sín verði eins og grár köttur hjá sér, alltént á meðan hún festir rætur.

„Það er bara gott ef þeir reikna með miklu af mér“

Heldur áfram námi

Auk handboltans ætlar Ásdís Þóra að halda áfram námi sínu við Fjölbrautarskólann í Ármúla til viðbótar sem reiknað er með að hún stundi vinnu hluta úr degi. Það segir hún vera jákvætt enda muni það auðvelda sér að komast betur inn í tungumálið og samfélagið. Reyndar segist Ásdís Þóra hafa nokkuð góðan grunn í Norðurlandamálunum eftir að hafa búið með foreldrum sínum á Norðurlöndunum.

Að standa undir álagi

Í tilkynningu sem Lugi sendi frá sér í morgun segir þjálfarinn að hún sé óslípaður demantur sem reikna megi með að geti skinið skært. „Það er bara gott ef þeir reikna með miklu af mér. Ekki er verra að fá smá pressu. Maður verður bara að standa undir henni.“

Í mörg horn að líta

Framundan er nóg að gera hjá Ásdísi Þóru. Tvær umferðir eru eftir af Olísdeildinni, bikarkeppnin og síðan úrslitakeppni Olísdeildarinnar. Eins og venjulega þá ætlar kvennalið Vals að vera í fremstu röð á öllum vígstöðvum. Til viðbótar stefnir í leiki hjá U19 ára landsliði kvenna í sumar.


„Ég hlakka mikið til næstu mánaðar og hafa nóg að gera,“ sagði Ásdís Þóra Ágústsdóttir, handknattleikskona hjá Val sem gengur til liðs við Lugi í Svíþjóð um mitt árið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -