„Það er ekki ofsagt að þetta hafi staðið tæpt hjá okkur. Þeir áttu síðustu sóknina, voru átta mörkum yfir og með sjö menn í sókn. Þeim tókst hinsvegar ekki að skora þótt allt væri lagt í sölurnar. Okkur tókst að standast áhlaup þeirra. Eitt mark í viðbót hefði þýtt vítakeppni eins og Grikklandi í vor,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í samtali við handbolta.is eftir að Valsmenn sluppu með skrekkinn gegn króatíska liðinu RK Bjelin Spacva Vinkovc í síðari leiknum í forkeppni Evrópudeildarinnar ytra í gærkvöld.
RK Bjelin Spacva Vinkovc vann leikinn í Króatíu í gær með átta mark mun, 32:24, en Valur þann fyrri með níu marka mun og komst þar af leiðandi áfram á minnsta mun.
Leyfðu alvöru baráttu
„Fyrri hálfleikur var okkur mjög erfiður. Leikmenn RK Bjelin Spacva Vinkovc voru fastir fyrir og dómararnir leyfðu alvöru baráttu. Línan var bara þannig. Þetta var ekkert Turda-dæmi. Við urðum litlir við mótlætið og misstum þá þar af leiðandi alltof langt frá okkur,“ sagði Óskar Bjarni um fyrri hálfleikinn í Vinkovc í gær en að honum loknum blés ekki byrlega fyrir Valsliðinu níu mörkum undir, 19:10.
Um tíma 10 mörkum undir
„Við vorum á tímabili tíu mörkum undir í fyrri hálfleik. Við náðum aldrei upp varnarleik í fyrri hálfleik og þar af leiðandi fengum við engin hraðaupphlaup, náðum ekki einu sinni almennilegri hraðri miðju. Við vorum alltaf að stilla upp í sóknina. Þeir léku aftar en í fyrri leiknum og náðu að berja okkur. Við urðum bara svolítið litlir,“ sagði Óskar Bjarni sem var mun ánægðari með síðari hálfleikinn. Þá tókst Valsliðinu aðeins að ná upp meiri hraða.
Mun betri síðari hálfleikur
„Síðari hálfleikurinn var mikið betri og í raun algjör óþarfi hjá okkur að missa leikinn niður í átta mörk aftur því við náðum að minnka forskotið niður í fimm eða sex mörk. Við urðum bara bensínlausir í lokin. Sem betur fer virtust leikmenn RK Bjelin Spacva Vinkovc verða það líka,“ sagði Óskar Bjarni sem þakkaði sínu sæla fyrir að sleppa fyrir horn.
Einn leikmaður RK Bjelin Spacva Vinkovc var rekinn af velli með rautt spjald í síðari hálfleik. Að sögn Óskars hefðu tveir til viðbótar mátt fara sömu leið eftir harkaleg brot á Alexander Petersson og Úlfari Páli Monsa Þórðarsyni.
Karakterinn stendur upp úr
„Lokamínúturnar voru mjög erfiðar. Merki um töf voru gefin hvað eftir annað í síðustu sóknunum. Við vorum orðnir staðir og þreyttir.
Það sem stendur upp úr að leikslokum var karakter og barátta sem kom okkur áfram. Þetta er einn minnistæðasti Evrópuleikur sem ég hef tekið þátt í vegna þess hversu erfitt allt var orðið í lokin,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals sem getur hér með farið að búa sig undir þátttöku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem leikin verður í október og nóvember.
Valur fer í F-riðil Evrópudeildar. Eins og leikjadagskráin er verður fyrsti leikur Vals í Skopje 8. okótber gegn Vardar.
8. október: HC Vardar – Valur.
15. október: Valur – Porto.
22. október: Melsungen - Valur.
29. október: Valur – Melsungen.
19. nóvember: Valur – HC Vardar.
26. nóvember: FC Porto – Valur.
Íslandsmeistarar FH taka sæti í H-riðli Evrópudeildar. Fyrsti leikurinn verður í Frakklandi 8. október gegn Fenix Toulouse.
8. október: Fenix Toulouse – FH.
15. október: FH – Gummersbach.
22. október: FH – IK Sävehof.
29. október: IK Sävehof – FH.
19. nóvember: Gummersbach – FH.
26. nóvember: FH – Fenix Toulouse.