- Auglýsing -
Elías Már Halldórsson hefur skrifað undir nýjan samning við Fredrikstad Ballklubb um þjálfun úrvalsdeildarliðs félagsins í kvennaflokki. Nýi samningurinn gildir til ársins 2025. Um leið skrifaði samstarfskona Elíasar Más, Gjøril Johansen Solberg, einnig undir þriggja ára samning en bæði komu þau til félagsins fyrir ári.
Elías Már tók við þjálfun kvennaliðs Fredrikstad Ballklubb á síðasta sumri og undir hans stjórn hafnaði liðið í sjöunda sæti í norsku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili. Áður en Elías Már fór til Noregs hafði hann stýrt karlaliði HK til sigurs í Grill66-deildinni.
Elías Már segir á heimasíðu Fredrikstad Ballklubb að hann vilji gjarnan taka þátt í frekari uppbyggingu hjá félaginu á næstu árum. Talsverð endurnýjun hafi átt sér stað á leikmannhópi félagsins á síðasta ári áður en hann tók við. Lið Fredrikstad eigi talsvert inni og geti náð enn lengra í keppni á meðal bestu kvennaliða Noregs. „Ég vil gjarnan taka þátt í þeim leiðangri,“ segir Elías Már Halldórsson handknattleiksþjálfari hjá Fredrikstad Ballklubb.
- Auglýsing -