- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Elín Jóna innsiglaði tvö mikilvæg stig – Berta í sigurliði

Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður og liðsmaður EH Aalborg. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður sá til þess að lið hennar, Ringkøbing Håndbold, fór með bæði stigin úr heimsókn til Ajax í dag í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik, 28:27.


Elín Jóna varði skot frá leikmanni Ajax sex sekúndum fyrir leikslok og kom þar með í veg fyrir að Ajax jafnaði metin í slag liðanna sem voru jöfn að stigum í ellefta og tólfta sæti deildarinnar fyrir viðureignina í Kaupmannahöfn í dag.


Ajax var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14. Leikmenn Ringkøbing Håndbold lögðu ekki árar í bát í síðari hálfleik. Þvert á móti hertu þeir róðurinn og náðu að snúa taflinu við.
Elín Jóna stóð talsverðan hluta leiksins í marki Ringkøbing Håndbold og varði sjö skot, 31%.


Ringkøbing Håndbold er þar með í 11. sæti með níu stig eftir 17 leiki af 24.

Fjögur mörk Bertu Rutar

Í næst efstu deild kvenna var Berta Rut Harðardóttir í stóru hlutverki hjá Holstebro þegar liðið vann HIK í Maglegårdshallen í Hellerup í dag, 29:25. Berta Rut skoraði fjögur mörk.


Holstebro er í þriðja sæti með 26 stig eins og Bjerringbro þegar 15 leikjum er lokið. EH Alaborg er efst með 28 stig. Andrea Jacobsen leikur með Álaborgarliðinu sem lék ekki í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -