- Auglýsing -
- Auglýsing -

Elmar skoraði 15 mörk – Eyjamenn hafa ekki lagt árar í bát

Mikil kátína braust úr á meðal Eyjamanna í Kaplakrika eftir sigurinn. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Leikmenn ÍBV spyrntu sér frá veggnum sem þeir voru komnir upp að í undanúrslitaeinvíginu við FH og unnu með eins marks mun, 29:28, þriðju viðureign liðanna í troðfullum Kaplakrika í kvöld. Fjórða viðureign liðanna verður í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 1. maí og hefst klukkan 17. Elmar Erlingsson skoraði sitt 15. og síðasta mark í leiknum 10 sekúndum fyrir leikslok, markið sem reyndist vera sigurmarkið. Elmar fór hamförum í leiknum, ekki síst í fyrri hálfleik.

Pavel sá við tveimur

Simon Michael Guðjónsson fékk síðasta tækifærið á lokasekúndunum eftir mark Elmars til að tryggja FH framlengingu. Pavel Miskevich markvörður ÍBV sá við Símoni rétt eins og hann hafði gert 40 sekúndum áður þegar Jóhannes Berg Andrason komst á auðan sjó og gat komið FH yfir í stöðunni, 28:28.

Pavel Miskevich hinn öflugi markvörður ÍBV fagnar. Ljósmynd/J.J.Long

ÍBV var marki yfir í hálfleik, 14:13, eftir að hafa skorað þrjú síðustu mörkin í fyrri hálfleik.

Eyjamenn voru sterkari framan af síðari hálfleik og náðu þeir mest fimm marka forskoti, 22:17, þegar 11 mínútur voru liðnar af leiktímanum. Þá var eins og sóknarleikurinn hrykki í baklás og leikmenn fór að flýta sér of mikið.

Jafnaði metin og markalausar mínútur

Aron Pálmarsson jafnaði loksins metin fyrir FH, 25:25, úr vítakasti 10 mínútum fyrir leikslok. Nærri fimm mínútur liðu þangað til næsta mark leiksins var skorað. Jón Bjarni Ólafsson kom FH yfir, 26:25, af línunni, mark sem var sennilega ólöglegt. Jóhannes Berg Andrason bætti 27. marki FH við í kjölfarið, 27:25.

Elmar Erlingsson minnkað muninn í eitt mark úr vítakasti, 27:26, þegar þrjár mínútur og 20 sekúndur voru til leiksloka. FH-ingar voru þá manni færri.

Jafnaði metin 70 sekúndum fyrir leikslok

Aron kom FH yfir, 28:26, áður en Gabríel Martinez Róbertsson svaraði um hæl fyrir ÍBV, tveimur mínútum fyrir leikslok. Daniel Vieira jafnaði metin, 28:28, 70 sekúndum fyrir leikslok, rétt um það bil sem FH-ingar voru að endurheimta Birgi Má Birgisson úr kælingu.

Pavel varði frá Jóhannesi Berg 40 sekúndum fyrir leikslok eins og áður segir. Eyjamenn náðu þar með að stilla upp í góða sókn, ekki síst eftir að hafa tekið leikhlé.

Mörk FH: Aron Pálmarsson 9/1, Jóhannes Berg Andrason 6, Símon Michael Guðjónsson 6, Birgir Már Birgisson 3, Jón Bjarni Ólafsson 2, Leonharð Þorgeir Harðarson 1, Einar Bragi Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 13, 31,7% – Axel Hreinn Hilmisson 0.

Mörk ÍBV: Elmar Erlingsson 15/4, Daniel Esteves Vieira 3, Nökkvi Snær Óðinsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Arnór Viðarsson 2, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 13. 36,1% – Pavel Miskevich 8/1, 61,5%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatatz.

Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni

Því miður verður handbolti.is ekki með viðtöl frá Kaplakrika í kvöld. Eftir að hafa rúntað um Kaplakrikasvæðið og nágrenni í stundarfjórðung í leit að bílastæði gafst tíðindamaður upp á leitinni. Ekki var einu sinni ólöglegt stæði að fá.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -