Elvar Ásgeirsson fór á kostum í kvöld þegar lið hans Nancy vann Sélestat, 32:31, á útivelli í frönsku B-deildinni í handknattleik. Nancy situr áfram í efsta sæti deildarinnar með 28 stig eftir 19 leiki eins og Pontault sem á tvo leiki til góða á Nancy.
Elvar skoraði sjö mörk í 10 skotum, fiskaði þrjú víti og átti sex stoðsendingar. Honum héldu hreinlega engin bönd að þessu sinni í hörkuleik á heimavelli Sélestat sem Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals lék með fyrir nokkrum árum.
Nancy var marki yfir að loknum fyrri hálfleik. Þetta var sjöundi sigurleikur Nancy í röð, þar af sá sjötti síðan Elvar gekk til liðs við félagið.
Grétar Ari Guðjónsson varði 15 skot, 33% hlutfallsmarkvarsla, þegar lið hans Nice tapaði fyrir Valence, 31:29, á heimavelli Valence. Nice er í sjöunda sæti deildarinnar með 18 stig eftir 19 leiki.
Alls eru leiknar 26 umferðir í frönsku B-deildinni og er keppni um efstu sætin afar jöfn.