- Auglýsing -
- Auglýsing -

Elvar fór á kostum og tryggði sigur á meisturunum

Elvar Ásgeirsson var frábær í liði Ribe-Esbjerg í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Elvar Ásgeirsson átti stórleik í kvöld með Ribe-Esbjerg þegar liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Danmerkurmeistara tveggja síðustu ára, GOG, 34:33, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla. Elvar skoraði m.a. tvö síðustu mörk liðsins í Blue Water Dokken, íþróttahöllinni í Esbjerg. Tryggði hann þar með sigurinn.


Elvar skoraði sjö mörk í átta skotum og átti þrjár stoðsendingar ofan í kaupið og var „banens beste“ hjá Ribe-Esbjerg eins og sagt er í Danmörku. Emil Madsen var allt í öllu hjá GOG með 11 mörk í 17 skotum.

Ribe-Esbjerg færðist upp fyrir Bjerringbro/Silkeborg í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með sigrinum með 16 stig eftir 13 leiki. Aalborg er efst með 26 stig. Þrátt fyrir gott gengi í Meistaradeild Evrópu þá hefur GOG ekki tekist eins vel til heimafyrir. Liðið er í sjötta sæti með 14 stig.

Kom lítið við sögu

Ágúst Elí Björgvinsson fékk að spreyta sig á að verja tvö vítaköst en kom að öðru leyti lítið við sögu. Því miður tókst Ágústi ekki að verja vítaköstin.

Mánuður er þangað til Ribe-Esbjerg og GOG mætast á ný og þá í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Víst að þá mætast stálin stinn á nýjan leik.

Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -