Elvar Örn Jónsson og liðsfélagar í MT Melsungen sitja í efsta sæti í þriðja riðli 16-liða úrslit eftir aðra umferð keppninnar sem fram fór í kvöld. Melsungen vann serbnesku meistarana Vojvodina, 36:29, í Novi Sad í Serbíu, og hefur þar með sjö stig eins og THW Kiel sem vann stórsigur á Þorsteini Leó Gunnarssyni og félögum í Porto, 32:22.
Melsungen og Kiel hafa yfirburðastöðu í riðlinum, sjö stig hvort. Porto er með tvö stig en Vojvodina ekkert.
Elvar Örn skoraði þrjú af mörkum Melsungen í sigurleiknum í Novi Sad. Arnar Freyr Arnarsson er ennþá frá keppni vegna meiðsla. Eftir fremur jafnan fyrri hálfleik þá gáfu leikmenn Vojvodina eftir í síðari hálfleik. Timo Kastening var markahæstur leikmanna Melsungen með sjö mörk og Jonathan Svensson var næstur með sex mörk.
Þorsteinn Leó markahæstur
Þorsteinn Leó var markahæstur hjá Porto í tapleiknum í Kiel í kvöld, 32:22. Hann skoraði fjögur mörk í átta skotum og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Porto stóð vel í leikmönnum Kiel í fyrri hálfleik. Aðeins var tveggja marka munur á liðunum í hálfleik, 14:12. Í síðari hálfleik áttu Þorsteinn og félagar erfitt uppdráttar. Þeir skoruðu aðeins 10 mörk gegn 18 frá leikmönnum Kiel.
Elias Ellefsen á Skipagøtu var markahæstur hjá Kiel með sex mörk. Eric Johansson var næstur með fimm mörk.
Sjá einnig: Tvö Íslendingalið unnu í kvöld en eitt tapaði
Úrslit leikja kvöldsins og stöðuna í riðlunum er að finna í greininni hér fyrir neðan.