- Auglýsing -
- Auglýsing -

EM 19 ára er komið á dagskrá – Ísland verður með

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur ákveðið Evrópumeistaramót karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri sem fram átti að fara á síðasta sumri, verði haldið í ágúst á þessu ári. EHF tilkynnti þetta í framhaldi af ákvörðun Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, að fella niður heimsmeistaramótið í þessum aldursflokki sem fram átti að fara í Grikklandi í sumar. IHF taldi ekki gerlegt að halda mótið í ljósi kórónuveirfaraldursins.


EHF sér hinsvegar möguleika á að taka upp þráðinn við úrslitakeppnina í þessum aldursflokki sem hætt var við á síðasta sumri vegna veirunnar.
Landslið Íslands í þessum flokki verður á meðal þátttakenda enda hafði það unnið sér inn keppnisrétt á mótinu sem átti að fara fram á síðasta sumri. Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði við handbolta.is að HSÍ hafi nánast um leið og tilkynning barst frá EHF vegna mótsins sent til baka staðfestingu um að Ísland ætlaði að senda lið sitt til leiks.


EM U19 ára landsliða karla fer fram í Varazdin og Koprivnica í Króatíu 12. – 22. ágúst og verður íslenska liðið í riðli með Serbíu, Slóveníu og Ítalíu. Alls taka landslið 16 þjóða þátt í mótinu og verður keppt í fjórum riðlum.


Liðið verður skipuð piltum fæddum 2002 og síðar. Þjálfarar liðsins eru þeir Heimir Ríkarðsson og Gunnar Andrésson. Reiknað er með að fyrsta æfing hópsins verði um næstu helgi á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir nokkru síðan var fjölmennur æfingahópur valinn í þessum aldurslokki, nokkru áður en IHF ákvað að slá HM 19 ára og yngri út af borðinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -