- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EM-gullið 2003: Það er í fínu lagi að óska öllum Íslendingum til hamingju

Mynd úr Morgunblaðinu mánudaginn 18. ágúst 2003. Ein villa er í myndatexta. Jón Eggert er Hallsson. Mynd/Skjáskot úr Morgunblaðinu
- Auglýsing -

Í dag, eru liðin 20 ár síðan að landslið Íslands í handknattleik karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, varð Evrópumeistari. Undir stjórn Heimis Ríkarðssonar, vann íslenska landsliðið það þýska á sannfærandi hátt í úrslitaleik, 27:23, í Kosice í Slóvakíu. Þetta voru, og eru enn, einu gullverðlaun íslensks handknattleikslandsliðs á Evrópu- eða heimsmeistaramóti.

Algjör snilld

„Þetta var algjör snilld og ég held að það sé í fínu lagi að óska öllum Íslendingum til hamingju með árangur liðsins,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari íslenska liðsins í sjöunda himni í samtali við Morgunblaðið mánudaginn 18. ágúst.

Íslenska liðið var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:10. „Í síðari hálfleik náðum við um tíma sjö marka forystu en þá leyfðu strákarnir sér að slaka aðeins á en þetta var aldrei í hættu. Þýski þjálfarinn labbaði til okkar þegar 45 sekúndur voru eftir og óskaði okkur til hamingju, hann var búinn að játa sig sigraðan,“ sagði Heimir ennfremur við Morgunblaðið.

Evrópumeistarar Íslands 2003
Markverðir:
Björgvin Páll Gústavsson, HK.
Pálmar Pétursson, Val.
Þórður Þórðarson, Haukum.
Aðrir leikmenn:
Arnór Atlason, KA.
Andri Stefán Guðrúnarson, Haukum.
Árni Björn Þórarinsson, KA.
Árni Þór Sigtryggsson, Þór Akureyri.
Ásgeir Örn Hallgrímsson, Haukum.
Einar Ingi Hrafnsson, Aftureldingu.
Hrafn Ingvarsson, Aftureldingu.
Ívar Grétarsson, Selfossi.
Ingvar Árnason, Val.
Jóhann Gunnar Einarsson, Fram.
Kári Kristján Kristjánsson, ÍBV.
Ragnar Hjaltested, Víkingi.
Sigfús Páll Sigfússon, Fram.
Heimir Ríkarðsson, þjálfari.
Jón Eggert Hallsson, aðstoðarþjálfari.
Karl Erlingsson, fararstjóri.
Andrés Kristjánsson, sjúkraþjálfari.
Jónas Már Fjeldsted, liðsstjóri.

Unnu sex leiki af sjö

Íslenska landsliðið vann sex leiki á mótinu en tapaði einum, fyrir Þýskaland 31:30, í riðlakeppninni. Liðið vann Ungverjaland 27:24, Slóvakíu 29:28, Rússland 33:24, Slóveníu 40:31 og Svíþjóð í undanúrslitum, 34:33, eftir framlengingu.

DV þriðjudaginn 19. ágúst 2003.

Arnór og Ásgeir í úrvalsliðinu

Ásgeir Örn Hallgrímsson varð markahæstur á mótinu með 55 mörk í sjö leikjum. Hann var valinn í úrvalslið mótsins ásamt Arnóri Atlasyni sem var besta vinstri skytta mótsins en Ásgeir Örn besta skyttan hægra metin.

Stemning var góð

„Það hefur einkennt hópinn í gegnum alla ferðina að fagna því sem við höfum verið að gera vel. Dansarnir í leikslok voru til staðar eftir hvern einasta sigurleik og ég tel að þessi stemning í liðinu hafi verið stór hluti af því að við náðum þessum árangri,“ sagði fyrirliðinn Ásgeir Örn Hallgrímsson í samtali við DV daginn eftir þegar íslenska liðið kom heim og fékk höfðinglegar mótttökur á Keflavíkurflugvelli við heimkomuna.

Daginn eftir bauð Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hópnum til hádegisverðar í Ráðherrabústaðnum.

Sigurlaunin á EM 18 ára landsliða 2003.

Annað kom ekki til greina

„Við fórum í keppnina með það markmið að ná í undanúrslit og þegar það var í höfn kom ekkert annað til greina en að fara alla leið og vinna þetta,“ sagði Ásgeir Örn ennfremur við DV sem kom út 19. ágúst 2003.

Þrír leikmenn Evrópumeistaraliðsins voru í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum fimm árum síðar, Arnór, Ásgeir Örn og Björgvin Páll Gústavsson, markvörður.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -