- Auglýsing -
Króatía – Holland 27:25(13:14)
Af liðunum 16 sem taka þátt í EM kvenna í handknattleik var landslið Króatíu talið til þeirra sem ólíklegust þóttu að komast í milliriðla keppninnar. Nú eru tvær umferðir búnar í C-riðli og Króatía hefur hrakið allar spár. Með tveimur sigurleikjum, gegn Ungverjum, og heimsmeisturum Hollands í dag, geta Króatar farið afslappaðri en ella í grannaslaginn við Serba á þriðjudagskvöldið.
Hollendingar eru slæmum málum. Veruleg hætta er á að heimsmeistararnir sitji eftir með sárt ennið og verði að pakka niður í töskur á miðvikudagsmorgun. Þeir geta rétt úr kútnum með sigri á Ungverjum í lokaleiknum. Öll nótt er ekki út ennþá en staðan er alls ekki góð.
- Danick Snelder, einn reyndasti leikmaður hollenska landsliðsins, hafði tvisvar verið vísað af leikvelli eftir aðeins 13 mínútna leik.
- Króatar voru með tögl og hagldir framan af leiknum. Þeir skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins og voru framan af með tveggja til þriggja marka forskot. Hollendingar jöfnuðu metin í fyrsta sinn, 11:11, eftir 23 mínútur eftir að hafa skorað þrjú mörk í röð. Hollenska liðið lét ekki þar við sitja heldur bætti tveimur mörkum við áður en Króatar svöruðu fyrir sig. Voru þá liðnar fimm mínútur frá síðasta marki Króata.
- Tea Pijevic varði vel í fyrri hálfleik í marki Króata, m.a. greip hún eitt sinn skot með annarri hendi eftir að hornamaður Hollands hafði farið inn úr hægra horni og náð máttlausu skoti.
- Holland var marki yfir í hálfleik, 14:13. Pijevic varði síðasta skot hálfleiksins. Larissa Kalaus hafði minnkað muninn fyrir Króata átta sekúndur fyrir lok hálfleiksins. Þegar upp var staðið í leikslok var Pijevic með 38% hlutfallsmarkvörslu.
- Hollendingar voru með 56 % skotnýtingu í fyrri hálfleik, Króatar 59%.
Króatar skoruðu tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks. Hollendingar svöruðu með tveimur mörkum. - Síðari hálfleikur var hnífjafn. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var hollenska liðið marki yfir, 23:22. Fimm mínútum síðar var staðan jöfn, 24:24.
Hollendingar töpuðu boltanum með línusendingu sem rataði ekki í réttar hendur þegar mínúta var eftir í stöðunni 26:25. Króatar hófu sókn. Hollenska liðið lék maður á mann í vörninni en hafði ekki erindi sem erfiði. Larissa Kalaus skoraði 27. mark Króata 35 sekúndum fyrir leikslok. - Larissa Kalaus skoraði síðasta mark Króata í báðum hálfleikjum og var valin maður leiksins í leikslok.
- Króatar höfðu tapað öllum leikjum sínum á tveimur Evrópumeistaramótum í röð, 2016 og 2018.
- Króatar hafa unnið Hollendinga fimm sinnum. Hollendingar hafa lagt Króata í fjögur skipti.
Mörk Króatíu: Larissa Kalaus 9, Camilla Micijevic 6, Dora Krsnik 4, Paula Posavec 2, Katarina Jezic 2, Andrea Simara 2, Josipa Mamic 1, Marijeta Vidak 1.
Varin skot: Tea Pijevic 15.
Mörk Hollands: Kelly Dulfer 5, Lois Abbingh 5, Laura van der Heijden 4, Angela Malastein 3, Danick Snelder 2, Bebbie Bont 2, Dione Housheer 2, Larissa Nusser 1, Bo van Wetering 1.
Varin skot: Tess Wester 8.
- Auglýsing -