Bæði lið þurftu sárlega á sigri að halda í þessum leik til þess að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum þótt vonin væri veik. Leikurinn var mjög sveiflukenndur þar sem þýska liðið reyndist að lokum vera sterkara og vann öruggan sjö marka sigur, 32:25. Von Þjóðverja um sæti í undanúrslitum lifir. Til að svo megi verða þurfa þeir einnig að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum. Vonir Ungverja um að spila um sæti eru hinsvegar foknar út í veður og vind. Ungverska liðið er enn án stiga.
Ungverjaland – Þýskaland 25:32 (11-13)
- Þjóðverjar byrjuðu leikinn mun betur og tóku snemma forystuna í leiknum þar sem ekkert gekk upp hjá ungverska lðinu. Þegar átján mínútur voru búnar af leiknum þá var staðan 10-6 fyrir þýska liðið.
- Þá tóku þjálfaradúettinn hjá Ungverjum leikhlé og breyttu aðeins áherslum í varnarleiknum auk þess að skipta um markmann. Melinda Szikora átti heldur betur eftir að svara kallinu. Hún varði hvert skotið á fætur öðru og var stór þáttur í því að Ungverjar unnu sig hægt og rólega inn í leikinn.
- Þegar 3 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þá minnkuðu Ungverjar muninn niður í eitt mark, 12-11 og fengu svo stuttu síðar tækifæri að jafna metin en brást bogalistin. Þjóðverjar nýttu sér tækifærið og komust í tveggja marka forystu í hálfleik, 13-11.
- Markverðir liðanna voru í sviðsljósinu í fyrri hálfleik, Melinda Szikora var með 55% markvörsku í þær 12 mínútur sem hún spilaði og hinum megin var Dinah Eckerle með 39% markvörslu.
- Það var líkt og ungverska liðið hafi ákveði að mæta bara hreinlega ekki til leiks í seinni hálfleik en þýska liðið skoraði fjögur fyrstu mörkin og var komið í 17-11 forystu eftir að aðeins fimm mínútur voru liðnar af hálfleiknum.
- Ungverska liðið hresstist til mikilla muna næstu mínútur á eftir og náði að minnka forystu Þjóðverja niður í eitt mark, 21-20, þegar 15 mínútur voru eftir af leiknum.
- Nær komust Ungverjar þó ekki og Þjóðverjar fóru með sigur af hólmi 32-25. Ungverjar því enn stigalausar í milliriðlinum en Þjóðverjar eru komnir með fjögur stig og halda draumnum um sæti í undanúrslitum á lífi.
- Emily Bölk var valin maður leiksins. Hún skoraði 5 mörk úr þeim 9 skotum og var markahæst í liði Þjóðverja. Hjá Ungverjum var Katrin Kljuber markahæst með 8 mörk.
Mörk Ungverjalands: Katrin Kljuber 8, Szandra Szöllösi 6, Viktoria Lukacs 4, Fanny Helembai 3, Noemi Hafra 2, Nadine Schatzl 1, Eszter Toth 1.
Varin skot: Melinda Szikora 9, Blanka Bíró 3.
Mörk Þýskalands: Emily Bölk 5, Xenia Smits 4, Antje Lauenroth 4, Alina Grijseels 3, Julia Behnke 3, Evgenija Minevskaja 3, Luisa Schulze 3, Marlene Zapf 2, Amelie Berger 2, Julia Maidhof 2, Ina Grosmann 1.
Varin skot: Dinah Eckerle 10.