Með mikilli baráttu og svakalegum dugnaði tókst stúlkunum í 17 ára landsliðinu að vinna upp fimm marka forskot Serba á síðustu mínútum viðureignar liðanna í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í dag og tryggja sér annað stigið, 30:30. Serbar voru marki yfir í hálfleik, 18:17. Næsti leikur íslenska liðsins verður gegn Noregi á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 10.
Liðlega sjö mínútum fyrir leikslok komust Serbar fimm mörkum yfir, 30:25, og virtist stefna í öruggan sigur þeirra enda haft gott forskot, mest sex mörk, nánast allan síðari hálfleikinn. Jafnteflið og það að snúa erfiðri stöðu upp í jafntefli á síðustu mínútum var mikilvægt fyrir íslenska liðið eftir tvær viðureignir á undan sem reyndust erfiðar og úrslit þeirra voru vonbrigði.
Fyrri hálfleikur í dag var jafn. Serbar voru heldur með frumkvæðið, eitt til tvö mörk lengst af.

Eftir að hafa lent fjórum mörkum undir snemma í síðari hálfleik, 17:21, þá náði íslenska liðið góðum kafla og jafnaði metin, 21:21. Ekki liðu nema þrjár mínútur frá jöfnunarmarkinu þangað til Serbar voru komnir með fimm marka forskot, 21:26.
Íslenska liðið reis hinsvegar upp á afturfæturna á lokasprettinum og sýndi sitt rétta andlit og tókst að jafna metin með mikilli vinnusemi og samstöðu í stað þess að láta hug falla. Serbar skoruðu ekki mark síðustu sjö og hálfu mínútuna.

Mörk Íslands: Ebba Guðríður Ægisdóttir 7, Laufey Helga Óskarsdóttir 5, Eva Steinsen Jónsdóttir 4, Eva Lind Tyrfingsdóttir 4, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Roksana Jaros 2, Tinna Ósk Gunnarsdóttir 2, Alba Mist Gunnarsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 1.
Varin skot: Danijela Sara Björnsdóttir 7, 29,2% – Erla Rut Viktorsdóttir 5, 27,8%.
EM17-’25: Milliriðlar, úrslit og staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.