Eftir frídag í gær á Evrópumóti 17 ára landsliða kvenna í Podgorica í Svartfjallalandi þá mætir íslenska landsliðið galvaskt til leiks gegn rúmenska landsliðinu dag klukkan 17.30 í krossspili um sæti 17 til 24. Sigurliðið leikur um sæti 17 til 20 föstudag og sunnudag en tapliðið keppir um sæti 21 til 24 sömu daga.
„Þetta leggst vel í okkur en leikurinn verður erfiður. Rúmenska liðið spilar aðeins öðruvísi bolta en liðin sem við höfum mætt hingað til,“ sagði Díana Guðjónsdóttir annar þjálfari íslenska liðsins við handbolta.is í gærkvöld eftir að hafa unnið að undirbúningi fyrir leikinn við Rúmena ásamt Hilmari Guðlaugssyni þjálfara, leikmönnum og öðrum starfsmönnum hópsins.
EM17-’25: Leikjadagskrá í krossspili og um sæti
Gamli herslumunurinn
Fyrir mótið var stefnan sett á að ná í annað af tveimur efstu sætum riðlakeppninnar á fyrsta stigi og ná inn í hóp átta til tíu efstu liða. Það tókst ekki. Í milliriðlum vantaði eitt stig í viðbót úr leikjunum tveimur til þess að ná inn í hóp níu til sextán svo segja má að gamla herslumuninn hafi vantað upp á til þessa. Liðið hefur átt frábæra kafla en misst dampinn þess á milli.
Einnig hafa leikirnir líka verið alltof sveiflukenndir og kaflar í öllum leikjunum þar sem við höfum dottið alltof langt niður, bæði sóknar- og varnarlega
Svekkelsi hafa ekki náð lengra
„Auðvitað er það svekkelsi hafa ekki náð lengra því við viljum auðvitað vinna alla leiki og ná langt. Okkur langaði lengra,“ sagði Díana og nefnir það sem vantað upp á til þess að ná betri árangri.

Talsverðar sveiflur
„Það er betri varnarleikur, bæði samvinna milli leikmanna og síðan einn á einn. Einnig hafa leikirnir líka verið alltof sveiflukenndir og kaflar í öllum leikjunum þar sem við höfum dottið alltof langt niður, bæði sóknar- og varnarlega,“ segir Díana og bæti við: „Þannig að við þurfum að vinna með stöðugleika sem er kannski ekkert skrítið að hann sé ekki kominn því við erum að læra.“
Löng og ströng ferð
Ferðin hefur verið löng og ströng hjá liðinu sem hófst með ferð til Skopje í Norður Makedóníu 18. júlí þar sem við tók vikulöng keppni á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar áður en farið var til Podgorica á Evrópumótið sem hófst 30. júlí.
Síðan má ekki gleyma stuðningnum sem við höfum fengið hér frá fjölskyldum leikmanna
Stórt skref fyrir allar
„Auðvitað er þetta lærdómur og búið að vera stórt skref að taka hjá öllum leikmönnum sem við munum pottþétt nýta í framtíðinni, jafnt sem einstaklingar í boltanum og lífinu. Það er frábært tækifæri að bera sig saman við önnur landslið og sjá hvað við þurfum að vinna með sem lið og einstaklingar.“
Frábær stuðningur
„Reynslan sem við höfum öðlast er frábær. Síðan má ekki gleyma stuðningnum sem við höfum fengið hér frá fjölskyldum leikmanna,“ sagði Díana Guðjónsdóttir annað þjálfari U17 ára landsliðs kvenna sem enn á þrjá leiki eftir á Evrópumótinu áður mótinu lýkur á sunnudaginn.
- Handbolti.is fylgist með viðureign Íslands og Rúmeníu klukkan 17.30 í dag í textalýsingu eins og öðrum leikjum íslenska liðsins á mótinu.
EM17-’25: Næsti leikur verður gegn Rúmeníu