- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EM18: Frábær frammistaða og fimm marka sigur á Svíum

18 ára landslið Íslands sem hafnaði í 4. sæti á EM 2024. Eftir röð f.v.: Elías Sindri Pilman, Bernard Kristján Owusu Darkoh, Daníel Montoro, Nathan Doku Helgi Asare, Jens Sigurðarson, Ævar Smári Gunnarsson, Ingvar Dagur Gunnarsson, Magnús Dagur Jónatansson, Garðar Ingi Sindrason, Dagur Leó Fannarson og Dagur Árni Heimisson. Fremstir eru: Antoine Óskar Pantano, Jens Bragi Bergþórsson, Stefán Magni Hjartarson, Harri Halldórsson og Ágúst Guðmundsson. Mynd/MKJ
- Auglýsing -

Piltarnir í 18 ára landsliði Íslands í handknattleik hófu keppni í átta liða úrslitum Evrópumótsins í morgun með því að leggja Svía með fimm marka mun, 34:29, með frábærri frammistöðu. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 19:16. Íslenska liðið var með yfirhöndina nær alla leikinn og réði svo sannarlega lögum og lofum gegn sænska liðinu sem var taplaust fyrir viðureignina.

Næsti leikur íslenska liðsins í riðlakeppni átta liða úrslita verður gegn Spánverjum á morgun klukkan 12.30. Þriðja og síðasta viðureignin verður á móti Noregi á fimmtudag.

Eftir jafnar upphafsmínútur tók íslenska liðið völdin í leiknum þegar kom var fram í miðjan fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var framúrskarandi og Jens Sigurðarson varði afar vel í markinu. Sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél, ekki síst skiluðu mörg hraðaupphlaup mikilvægum mörkum.

Áfram var íslenska liðið með yfirhöndina í síðari hálfleik, m.a. var fimm marka munur, 23:18, áður en Svíar náðu áhlaupi. Sóknarleikur íslenska liðsins hikstaði um stund í viðbót við þrjár brottvísanir á skömmum tíma. Svíar minnkuðu muninn tvisvar í eitt mark, síðast, 26:25 þegar 11 og hálf mínúta var eftir. Eftir það hrökk vörnin aftur í fyrra horf. Svíar léku sig í vandræði hvað eftir annað. Sóknarmönnum óx einnig ásmegin á síðustu 10 mínútunum. Boltinn söng í netmöskvum sænska marksins hvað eftir annað. Svíar áttu enga ása eftir upp í erminni.

Sætur, sanngjarn og glæsilegur sigur hjá íslensku piltunum.

Mörk Íslands: Ágúst Guðmundsson 12/1, Harri Halldórsson 7, Dagur Árni Heimisson 5, Garðar Ingi Sindrason 5, Jens Bragi Bergþórsson 4, Stefán Magni Hjartarson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson 13/2, 31%.

Mörk Svíþjóðar: Nikola Roganovic 6, Arvid Andreasson 5, Mattias Söderberg 4, Axel Hallberg 3, Alfred Arnelin 3, Max Pedersen 2, Måns Fredriksson 2, Liam Hultberg 2. Alvin Lindvall 1, Ola Peterson 1.
Varin skot: Olle Söderqvist 6, 22% – Viggo Håkansson 0.

EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -