- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU19: Grátlegt tap fyrir Þjóðverjum

Skiljanlega voru vonbrigðin mikil meðal íslensku stúlknanna eftir tapið í dag. Mynd/EHF/Marius Ionescu
- Auglýsing -

Stúlkurnar í U19 ára landsliði Íslands töpuðu afar naumlega fyrir þýska landsliðinu í annarri umferð B-riðils Evrópumeistaramótsins í Rúmeníu í dag, 31:30, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13, og mest náð fjögurra marka forskoti, 25:21, eftir 13 mínútna leik í síðari hálfleik.

Óhætt er að segja sigurinn hafi gengið íslenska liðinu úr greipum. Tíu mínútum fyrir leikslok var Ísland tveimur mörkum yfir, 27:25. Sóknarleikurinn hrökk í baklás. Þjóðverjar skoruðu fjögur mörk í röð á sama tíma og íslenska liðið skoraði ekki í nærri sex mínútur. Þýska liðið náði tveggja marka forskoti sem því tókst nánast að hanga á allt til leiksloka þrátt fyrir að vera tveimur færri lengst af síðustu tvær og hálfa mínútu leiksins.

Áfram Ísland! Mynd/ EHF/Marius Ionescu


Íslenska liðinu tókst að minnka muninn í eitt mark, 30:31, og vann boltann þegar 40 sekúndur voru eftir. Sending fram leikvöllinn eða markskot rataði ekki rétta leið. Þjóðverjar hófu sókn og unnu vítakast. Ethel Gyða Bjarnesen varði en því miður reyndist tíminn of naumur til að jafna metin. Embla Steindórsdóttir skoraði en leiktíminn var út.

Íslenska landsliðið var sterkara í 50 mínútur í leiknum. Varnarleikurinn var frábær og sóknarleikurinn gekk afar vel. Fyrri hálfleikurinn var afar góður og forskotið þrjú til fjögur mörk síðustu 15 mínúturnar.

Síðustu tíu mínúturnar voru hrein martröð og tapið þar af leiðandi grátlegt.

Tinna Sigurrós Traustadóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir, Ethel Gyða Bjarnesen, markvörður, og Inga Dís Jóhannsdóttir. Mynd/EHF/Marius Ionescu

Þriðji og síðasti leikur íslenska liðsins í riðlakeppninni verður við Portúgal á sunnudaginn. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.

Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 9, Embla Steindórsdóttir 7/6, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 5, Katrín Anna Ásmundsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 1, Tinna Sigurrós Traustadóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnesen 7/1, 25% – Elísa Helga Sigurðardóttir 3, 25%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -