Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði fjórða leiknum á Evrópumóti 19 ára landsliða í morgun er það mætti hollenska landsliðinu í fyrri viðureign sinni í milliriðlakeppninni um sæti níu til sextán á mótinu. Hollendingar voru með yfirhöndina frá upphafi til enda og voru sex mörkum yfir þegar upp var staðið, 32:26. Forskot Hollendinga var fjögur mörk að loknum fyrri hálfleik, 16:12.
Næsti leikur hjá íslenska liðinu verður gegn Króatíu og hefst klukkan 10 í fyrramálið í Pitesi í Rúmeníu eins og fyrri viðureignir íslenska liðsins á mótinu.
Ísland leikur væntanlega um 13. til 16. sæti mótsins. Liðið verður að halda vel á spilunum til þess að tryggja sér farseðilinn á HM 20 ára landsliða á næsta ári.
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins í dag, 1:0. Því miður var það í eina skiptið í leiknum sem íslenska liðið var yfir í leiknum. Fyrstu 20 mínútur fyrri hálfleiks gengu ekki sem skildi. Mörg opin færi fóru forgörðum. Hollenska liðið gekk á lagið og var með sex marka forskot, 14:8, að loknum liðlega 20 mínútum. Síðustu 10 mínútur hálfleiksins gengu betur hjá íslensku stúlkunum. Þeim tókst að minnka muninn í tvö mörk og virtust vera að ná sér á strik.
Upphafskafli síðari hálfleiks var einnig ágætur og gaf von um að Íslandi tækist að minnka meira muninn og jafnvel jafna metin. Það gekk ekki eftir. Hollenska liðið reyndist sterkara.
EMU19: Vorum sjálfum okkur verst
Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 7/6, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 3, Embla Steindórsdóttir 3/1, Hildur Lilja Jónsdóttir 2, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 1, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 8, 22,8% – Elísa Helga Sigurðardóttir 2, 33,3%.
EMU19: Milliriðlar, leikir, úrslit og staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.