Stúlkurnar í U19 ára landsliðinu í handknattleik burstuðu Serba með 11 marka mun, 33:22, í síðasta leik sínum á Evrópumótinu í Rúmeníu í dag. Með sigrinum tryggði Ísland sér þátttökurétt á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða í Norður Makedóníu á næsta sumri. Serbar sitja eftir með sárt ennið og verða að taka þátt í forkeppni í vetur um eitt laust sæti á HM. Þrettánda sætið er niðurstaða íslenska liðsins eftir þrjá sigurleiki á síðari hluta mótsins.
Íslenska liðið lék sinn allra besta leik í keppninni í dag, þegar mest á reyndi. Varnarleikurinn var stórkostlegur, jafnt 6/0 sem 5/1. Serbar komust strax í vandræði í sóknarleik sínum og unnu sig aldrei út úr þeim vanda. Engin ráð dugðu og lék serbneska liðið sig í vandræði hvað eftir annað. Í kjölfarið fékk íslenska liðið fjöldan allan af hraðaupphlaupum sem nýttust vel.
Segja má að tónninn hafi verið gefinn strax í upphafi. Íslensku stelpurnar komu gríðarlega ákveðnar til leiks og skoruðu fjögur fyrstu mörkin. Serbar tóku leikhlé eftir hálfa fimmtu mínútu, 5:1 undir. Ekkert var gefið eftir af hálfu íslenska liðsins sem lék við hvern sinn fingur.
Sex mörkum munaði á liðunum eftir fyrri hálfleik, 16:10. Munurinn jókst jafnt og þétt í síðari hálfleik og var mestur 12 mörk skömmu fyrir leikslok. Serbneska liðið var fullkomlega ráðþrota meðan íslenska sveitin hljóp fram og aftur leikvöllinn og fagnaði hverju markinu á fætur öðru.
Frábær endir á mótinu sem staðið hefur yfir síðan 6. júlí.
Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 9/4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 7, Embla Steindórsdóttir 6/2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 7/1, 27% – Elísa Helga Sigurðardóttir 1, 33,3%.
Að vanda fylgdist handbolti.is með leiknum í beinni textalýsingu.