- Auglýsing -
- F-16 orrustuþotur danska hersins taka ekki á móti heimsmeisturum Dana þegar flugvél þeirra nálgast Kastrup í dag en liðið ferðast með almennu flugi frá Stokkhólmi. Tvær þotur danska hersins tóku á móti flugvél landsliðsins þegar liðið kom heim eftir sigur á HM í Egyptalandi fyrir tveimur árum. Ástæða þess að þoturnar taka ekki á móti landsliðinu dag er orkusparnaður danska hersins en eldsneyti á vélarnar hefur hækkað mjög í verði síðasta árið eftir innrás Rússa í Úkraínu.
- Danska landsliðið kemur til Kastrup á þriðja tímanum í dag. Þar verður stutt móttökuathöfn áður en farið verður með rútu til miðborgar Kaupmannahafnar þar sem önnur móttaka verður í ráðhúsi borgarinnar sem stendur við Ráðhústorgið sem margir Íslendingar þekkja. Að henni lokinni verður landsliðið hyllt þegar leikmenn ganga út á svalir ráðhússins á sjötta tímanum í kvöld. Reiknað er með að ekki verði þverfótað á svæðum í kringum ráðhúsið meðan landsliðið verður þar innandyra á milli klukkan 17 og 19.
- Bein útsending verður frá komu danska landsliðsins heim á TV2 og TV2 Play frá því í hádeginu í dag og fram á kvöld.
- Styttan sem danska landsliðið vann í gærkvöld í þriðja sinn í röð í gær fer rakleitt í geymslu í bankahólf sem danska handknattleikssambandið hefur leigt á undanförnum árum undir gripinn. Verðlaunagripurinn verður ekki til sýnis. Styttan er 50 sentímetrar á hæð og vegur 19,5 kg. Hún var tekin í notkun á HM 2015 sem fram fór í Katar.
- Sjö leikmenn danska landsliðsins hafa tekið þátt í að vinna alla þrjá heimsmeistaratitlana, 2019, 2021 og 2023, sem Danir hafa unnið á undanförnum fjórum árum. Þeir eru Simon Hald, Johan Hansen, Mikkel Hansen, Mads Mensah, Henrik Møllgaard, Magnus Landin og Niklas Landin.
- Margar byggingar og fyrirtæki í Danmörku, þá ekki síst í Kaupmannahöfn skreyta sig í fánalitum Danmerkur í dag, rauðum og hvítum. Má þar m.a. nefna Tívolí í Kaupmannahöfn, hús danska iðnaðarins og stórbeltisbrúin sem skilur að Sjáland og Fjón.
- Rasmus Lauge varð í gærkvöld sjötti leikmaðurinn til þess að skora tíu mörk eða fleiri í úrslitaleik HM karla. Hvít-Rússinn Aleksandr Tuchkin varð fyrstur til þess. Hann skoraði 11 mörk fyrir Sovétríkin í úrslitaleik við Svía á HM 1990 í Tékkóslóvakíu. Daninn Mikkel Hansen og Frakkinn Nikola Karabatic skoruðu 10 mörk hvor úrslitaleik HM 2011. Frakkkinn Michaël Guigou skoraði 10 mörk í úrslitaleik HM 2009 og Spánverjinn Juanín García 11 mörk í úrslitaleik HM 2005.
- Auglýsing -