- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Engin breyting á toppnum – baráttusigur hjá Leipzig

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Evrópumeistara SC Magdeburg. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Enn og aftur minnkaði SC Magdeburg forskot Füchse Berlin í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik niður í eitt stig í gær. Magdeburg vann Stuttgart með níu marka mun á heimavelli, 40:31, og hefur þar með 48 stig þegar liðið á sjö leiki eftir. Berlínarliðið hefur leikið einum leik fleira en það vann Göppingen, 32:27, á fimmtudagskvöld.


Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk fyrir SC Magdeburg. Tvö þeirra voru úr vítaköstum. Ómar Ingi er skráður fyrir einni stoðsendingu. Íþróttamaður ársins 2023, Gísli Þorgeir Kristjánsson, skoraði þrjú mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði ekki að þessu sinni.

Viggó var fjarverandi

Lærisveinar Rúnars Sigtryggsson í SC DHfK Leipzig unnu baráttusigur á heimavelli á liði Lemgo, 29:28. Viggó Kristjánsson var ekki í leikmannahópi SC DHfK Leipzig að þessu sinni.

Andri Már Rúnarsson lék prýðisvel fyrir SC DHfK Leipzig-liðið og skoraði m.a. fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Með sigrinum fór Leipzig upp fyrir HSV Hamburg og situr í áttunda sæti með 25 stig að loknum 26 af þeim 34 leikjum sem hvert lið verður að ljúka áður en upp verður staðið í byrjun sumars.

Hallar undan fæti

Heldur hallaði undan fæti hjá Bergischer HC í gær en liðið situr í næsta neðsta sæti. Bergischer tapaði fyrir Eisenach, 30:27, á heimavelli. Eisenach er í 16. og þriðja neðsta sæti með 18 stig, fimm stigum fyrir ofan Bergischer HC. Arnór Þór Gunnarsson er í þjálfarateymi félagsins. Bergischer HC á reyndar leik til góða á Eisenach.

Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen töpuðu fyrir Wetzlar, 30:27. Ýmir Örn kom talsvert við sögu í varnarleiknum. Rhein-Neckar Löwen siglir lygnan sjó í 11. sæti af 18 liðum deildarinnar.

Staðan:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -