- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Enginn bikar og allir frekar slakir

Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður GOG, er danskur meistari í handknattleik. Mynd/GOG
- Auglýsing -

„Það er ekki mikið gert úr þessum deildarmeistaratitli hér í Danmörku. Engin bikar og allir voru frekar slakir. Það kom mér á óvart,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður og markvörður GOG, sem varð danskur deildarmeistari í handknattleik í gær með sigri á Frederica í lokaumferðinni, 30:26. GOG varð þar með stigi fyrir ofan Aalborg Håndbold sem er ríkjandi meistari. Næst tekur úrslitakeppnin við á laugardaginn en hún verður leikin í tveimur fjögurra liða riðlum.


Þetta er í fyrsta sinn sem Viktor Gísli verður deildarmeistari í handknattleik í meistaraflokki. Fyrr á þessari leiktíð varð hann bikarmeistari í fyrsta sinn þegar GOG vann bikarkeppnina sem tókst ekki að ljúka fyrir ári vegna kórónuveirunnar.

GOG hefur hefur ekki orðið deildarmeistari í 15 ár fyrr en í gær.

Mikill léttir fyrir alla

„Þetta er stór áfangi fyrir félagið og um leið mikill léttir fyrir okkur í liðinu. Við höfum verið í efsta sæti deildarinnar í mjög langan tíma og vorum með fimm stiga forskot um skeið en töpuðum því miður og þá fann maður að pressan varð meiri,“ sagði Viktor Gísli þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið í morgun.

Óþarflega mikil pressa

„Við þurftum að minnsta kosti annað stigið úr leiknum í gær til þess að verða deildarmeistarar. Þetta var óþarflega mikil pressa því við áttum að vera búnir að gera út um dæmið fyrir löngu síðan,“ sagði Viktor Gísli sem áfram mun hafa í mörg horn að líta.

GOG ætlar sér að vinna meistaratitilinn í vor en það var síðast danskur meistari 2007. Fleiri lið gera tilkall til meistaratignar þetta árið því bæði ríkjandi meistarar Aalborg Håndbold og Bjerringbro/Silkeborg, sem leikið hefur afar vel upp á síðkastið, munu ekki gefa þumlung eftir fyrr en í fulla hnefana.

Mætir Íslendingum

„Bjerringbro/Silkeborg hefur leikið mjög vel upp á síðkastið eftir að sex stig voru dæmd af liðinu fyrir að tefla fram ólöglegum leikmanni. Okkur hefur hinsvegar gengið mjög vel á móti þeim og vonandi verður engin breyting þar á,“ sagði Viktor Gísli en GOG verður með Bjerringbro/Silkeborg, SönderjyskE, sem Sveinn Jóhannsson er hjá, og Kolding þar sem Ágúst Elí Björgvinsson, annar landsliðsmarkvörður, stendur á milli markstanganna. Liðin fjögur mætast heima og að heiman.

Í hinum riðlinum eiga sæti Aalborg Håndbold, þar sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari, Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í Holstebro, Skjern með Elvar Örn Jónsson innanborðs og Skanderborg.

Í lokin eigast við sigurlið hvors riðils í úrslitaleik um danska meistaratitilinn.

Viktor Gísli Hallgrímsson og Mathias Gidsel, samherji hans, fagna sigri á leiktíðinni. Mynd/GOG

Í eldlínu Evrópudeildar

„Það verður nóg að gera á næstunni. Auðvitað ætlum við okkur meistaratitilinn en einnig er stefnan að ná langt í Evrópudeildinni þar sem við erum komnir í átta liða úrslit. Við mætum Wisla Plock í tveimur leikjum og eigum heimaleikinn fyrst 13. apríl og útileikinn viku síðar. Við spiluðum á móti Plock í Meistaradeildinni á síðasta tímabili svo við þekkjum nokkuð vel út í hvað við erum að fara. Okkar markmið eru skýr. Þau er að komast langt í Evrópukeppninni og vinna danska meistaratitilinn í vor,“ sagði Viktor Gísli sem og bætti við.

„Það eru bara skemmtilegir tíma framundan. Ég hef náð nokkrum góðum leikjum upp á síðkastið þannig að mér líður vel og er bjartsýnn á framhaldið.“

Aukin samkeppni

Fyrir nokkru gekk GOG frá samkomulagi við norska landsliðsmarkvörðinn Torbjørn Sittrup Bergerud um að leika með liðinu á næsta keppnistímabili. Bergerud er einn fremsti markvörður heims um þessar mundir og stendur nú vaktina hjá Flensburg í Þýskalandi. Viktori Gísla líst vel á auka samkeppni sem hann segir að sé nokkuð sem hann verði að venjast við á næstu árum enda ætli hann sér að ná langt. Þar með verði hann að vera tilbúinn að takast á við samkeppni frá frábærum markvörðum.

Ný og góð reynsla

„Ég veit að það verður gott fyrir mig að vera með heimklassa markverði í eitt tímabil. Í framtíðinni verð ég vonandi í heimklassa liðum og mun þar af leiðandi deila markvarðarstöðunni með framúrskarandi markverði öllum stundum. Það verður ný og góð reynsla fyrir mig að vinna með Bergerud. Hún verður öðruvísi en ég hef mátt venjast til þessa vegna þess meðal annars að ég mun fá minni tíma í hverjum leik. Það gefur mér aftur á móti betri tíma til að æfa meira og styrkja mig. Ég er bjartsýnn á samstarfið og er viss um að það verður mér til góða,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður deildar-, og bikarmeistara GOG í Danmörku við handbolta.is í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -