Bob Hanning framkvæmdastjóri þýska meistaraliðsins Füchse Berlin liggur sjaldan á skoðunum sínum. Í viðtali við Stuttgarter Zeitung gagnrýnir hann harðlega forystu þýska handknattleikssambandsins fyrir framkomu þess við Hassan Moustafa forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, í tengslum við væntanlega forsetakosningar IHF. Segir Hanning sambandið vega ómaklega að Moustafa með stuðningi við framboð Gerd Butzeck gegn Moustafa.
„Enginn innan alþjóða handknattleikshreyfingarinnar hefur gert meira fyrir þýskan handknattleik en Hassan Moustafa,“ segir Hanning og færir rök fyrir máli sínu.
„Hvar halda menn að þýskur handknattleikur stæði í dag ef Moustafa hefði ekki beitt sér fyrir að Þýskaland fékk frímiða, „wild card“, á HM 2015 þegar við vorum að skrapa botninn. Frímiði á HM breytti öllu, hélt okkur inn á HM og var spark í rassinn á okkur,“ segir Hanning. Víst er að með orðum sínum strýkur Hanning mörgum öfugt eins og stundum áður.
Stórmót til Þýskalands
Einnig bendir Hanning á að Moustafa hafi lagt Þýskalandi lið við að halda stórmót í handknattleik sem hafi aukið áhuga fyrir íþróttinni.
Moustafa hefur verið forseti Alþjóða handknattleikssambandsins í aldarfjórðung. Þrír menn hafa boðað framboð gegn Moustafa á þingi IHF í desember. Þykir Butzeck eiga skásta möguleika á að velta Moustafa, sem er 81 ár gamall, úr sessi.