- Auglýsing -
- Auglýsing -

Enginn leikja kvennaliðanna fer fram á heimavelli

Harpa Valey Gylfadóttir leikmaður ÍBV í leik gegn KA/Þór. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Enginn af leikjum íslensku liðanna í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik fer fram hér á landi. Þrjú íslensk lið taka þátt, Íslandsmeistarar KA/Þórs, Valur og ÍBV. Öll hafa þau tekið þá ákvörðun að selja heimaleikjaréttinn og leika ytra. Viðureignirnar fara fram frá 15. til 24. okótber.


Íslandsmeistarar KA/Þórs fara til Kósovó og mæta KHF Istogu föstudaginn 15. og laugardaginn 16. október.


Valur verður á ferðinni í næsta nágrenni sömu helgi en kvennalið Vals sækir ZRK Bekament Bukovicka Banja heim til Serbíu laugardaginn 16. og sunnudaginn 17. október.


Helgina á eftir, 23. og 24. október leikur kvennalið ÍBV í Þessalóníku við PAOK frá Grikklandi.

Mikill kostnaður – leikmenn fjárafla


Ákvörðun félaganna snýr fyrst og fremst að fjárhagshliðinni en þátttaka í Evrópukeppni félagsliða er kostnaðarsöm. Ekkert liðanna þriggja getur talist hafa verið heppið með andstæðinga sé eingöngu litið til kostnaðar við ferðalög. Erlingur Kristjánsson formaður kvennaráðs KA/Þórs sagði fyrr í þessum mánuði í samtali við Akureyri.net að það kæmi einfaldlega betur út fjárhagslega að leika báða leikina ytra.

Rakel Sara Elvarsdóttir og félagar í KA/Þór leika fara til Kósovó í næsta mánuði. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Verulegur hluti kostnaðar er greiddur af leikmönnum sjálfum með afrakstri af ýmiskonar fjáröflunum sem farið er í vegna þátttökunnar.

Sama upp á teningnum

Svipaða sögu er að segja um karlaliðin. Selfoss seldi heimaleikjarétt sinn í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar. Valur gerði slíkt hið sama í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar og fyrir dyrum stendur hjá Haukum að leika tvisvar á Kýpur í næsta mánuði.


FH-ingar ætla að leika heima og heiman gegn Minsk í næsta mánuði þótt allt annað en auðvelt sé að ferðast til Hvíta-Rússlands þessi dægrin.


Valsliðið lék hér heima í síðustu viku gegn Lemgo í annarri umferð Evrópudeildarinnar og er núna komið út til Þýskalands hvar þeir mæta Lemgo annað kvöld. Samkvæmt reglum Handknattleikssambands Evrópu er ekki leyfilegt að selja heimaleikjaréttinn í annarri umferð Evrópudeildarinnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -